Skoðun

Fleiri konur við stjórnvölinn

Steingrímur J. Sigfússon skrifar
Hinn 1. september næstkomandi taka gildi ný lög sem tryggja eiga lágmarkskynjajafnvægi í stjórnum fyrirtækja yfir ákveðinni stærð. Lögin voru sett árið 2010 og eru að nokkru leyti sniðin að norskri fyrirmynd. Ástæða lagasetningarinnar er einföld; hlutur kvenna í stjórnunar- og áhrifastöðum í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi hefur aukist allt of hægt. Ekki er um að kenna skorti á hæfum og vel menntuðum konum til slíkra starfa. Þvert á móti útskrifast nú fleiri konur en karlar með háskólapróf í flestum greinum sem stjórnendur koma almennt úr. Ójafnt kynjahlutfall á þessu sviði sem fleirum er birtingarmynd þess sem enn er óunnið í jafnréttisbaráttunni, íhaldssemi og skorts á fagmennsku og metnaðar í trénuðu andrúmslofti feðraveldisins.

Virkjum mannauðinn allan

Reynslan sýnir að betri árangur næst í fyrirtækjarekstri eftir því sem kynjahlutföll eru jafnari í stjórnum og stjórnendastöðum. Reyndar því betri eftir því sem konur eru fleiri, andinn á vinnustað er heilbrigðari og vinnan skemmtilegri.

Gott samstarf hefur verið um undirbúning gildistöku laganna milli stjórnvalda, viðskiptalífsins og aðila eins og Félags kvenna í atvinnulífinu.

Tími til aðgerða

Fram undan eru aðalfundir fyrirtækja, þeir síðustu áður en lögin taka gildi. Hér með er skorað á alla viðkomandi að gera það sem til þarf til að ákvæði laganna um minnst 40% af hvoru kyni í stjórn verði að fullu virt frá fyrsta degi. Einnig er ástæða til að senda hvatningu um hið sama til þeirra sem enn eru ekki bundnir af ákvæðum laganna. Það á við um minni fyrirtæki og stjórnir þeirra, hagsmunasamtök o.s.frv.

Það er sannfæring undirritaðs að ekki aðeins sé með þessu stigið afar gagnlegt skref í jafnréttisátt og í átt til betri reksturs og eðlilegri aðstæðna í íslensku viðskiptalífi, heldur muni aukið jafnrétti á þessu sviði einnig hafa afleidd og jákvæð áhrif í jafnréttisbaráttunni að öðru leyti. Má þar nefna baráttu gegn kynbundnum launamun og gegn úreltum staðalímyndum um kynin og kynjahlutverk.

Til hamingju með þetta skref og tryggjum glæsilega gildistöku nýrra laga 1. september næstkomandi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×