Fyrsta undanúrslitakvöldið í Ísland got Talent fer fram á sunnudagskvöldið þar sem fimmtíu fermetra LED-skjár verður vígður.
Skjárinn er stærsti og fullkomnasti LED-skjár sem komið hefur til Íslands en það er hljóð- og ljósafyrirtækið Exton sem hefur fest kaup á skjánum.
„Ég var orðinn mjög stressaður á þriðjudaginn,“ segir Gísli Berg, forstöðumaður Framleiðsludeildar Stöð 2 í samtali við Vísi. Flutningur skjásins hafi tafist og hafi hann setið fastur í Sádi-Arabíu fram á þriðjudag.
„Svo barst hann frá Sádi-Arabíu í Austurbæ á innan við sólarhring,“ segir Gísli léttur en unnið var við að koma skjánum upp í Austurbæ í dag.
Skjárinn er tíu metrar á breidd og fimm metrar á hæð. Svarar það til um 465 tommu sjónvarpstækis væru flekarnir settir allir saman. Upplausnin er 2,2 milljónir pixla en fjórir millimetrar eru á milli pixla.
Gísli segir eftirspurn eftir skjáum sem þessum sífellt vera að aukast hér á landi og þá sérstaklega hjá erlendum tónlistarmönnum sem sæki Ísland heim. Í því samhengi má nefna að tónlistarkappinn David Guetta mun nota skjáinn á 25 ára afmælistónleikum FM 957 þann 16. júní. Þá eru fleiri stór verkefni á döfinni sem Exton hyggst nota skjáinn í.
Fyrsta undanúrslitakvöldið af þremur í Ísland got Talent fer fram á sunnudagskvöldið. Þar berjast sjö atriði um tvö laus sæti á úrslitakvöldinu þann 27. apríl.
Þátturinn á sunnudaginn verður í opinni dagskrá og hefst klukkan 19.45.
Sá stærsti kominn til Íslands
