Skoðun

Kjölfesta borgarskútunnar

Friðrik Rafnsson skrifar
Mikið óskaplega var nú gaman að fylgjast með því hvernig Besti flokkurinn stimplaði sig glaðbeittur inn í borgarpólitíkina fyrir rúmum fjórum árum.

Fjölbreyttur hópur hæfileikafólks á ýmsum sviðum sem fæst hafði skipt sér af stjórnmálum mætti á svæðið með lífsgleðina að vopni, hleypti upp þessu venjulega karpi gömlu flokkanna og ruglaði öllum viðmiðum með þeim afleiðingum að flokkshestar (og –hryssur), fjölmiðlafólk og stjórnmálaskýrendur urðu kjaftstopp og vissu hvorki í þennan heim né annan.

Þetta var alveg gríðarlega lífgandi fyrir borgarbúa, enda vann Besti flokkurinn stórsigur sem kunnugt er með Jón Gnarr í broddi fylkingarinnar.

Mögum á óvart reyndust síðan hann og hans fólk fyllilega fært um að axla þessa kannski heldur óvæntu ábyrgð, þau nálguðust þetta vandasama verk, bera höfuðábyrgð á stjórnun höfuðborgarinnar, af hógværð og einurð og skila nú fjórum árum síðar af sér betri og mannlegri borg iðandi af skapandi mann- og atvinnulífi þrátt fyrir erfiðar aðstæður í kjölfar efnahagshrunsins.

Nú er að hefjast nýr kafli á þessari vegferð. Björt framtíð með blöndu af fólki af lista Besta flokksins og nýjum mannskap, býður fram krafta sína með Björn Blöndal í oddvitasætinu, og vill nú fylgja þessari stefnu eftir, halda áfram á braut vandaðrar stjórnsýslu, stefnufestu, skapandi samskipta og vinnugleði.

Fjölmargir héldu að Besti flokkurinn væri bullbóla, en hann reyndist vera sú kjölfesta sem gerði Reykjavík kleift að venda og fá aftur byr í seglin. Höfuðborgin okkar siglir nú þöndum seglum í hressilegum meðbyr á vit nýs kafla í sögu borgarinnar.

Með því að kjósa Bjarta framtíð tryggja Reykvíkingar að borgarskútunni verði áfram stýrt af þeirri skynsemi og metnaði sem einkennt hefur stjórn borgarinnar undanfarin fjögur ár.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×