Skoðun

Halló litli villikötturinn minn*

Kristín Elfa Guðnadóttir skrifar
Það er fullt af flækingskisum í Reykjavík. Margar þeirra eru hraktar og smáðar, hungraðar og  hálfvilltar. Svo eru hundar úti um allan bæ sem skipta um heimili eins og nærbuxur af því að þeir hættu að vera sætir hvolpar og þurfa nokkur fósturheimili áður en þeir komast í öruggt skjól eða, eins og því miður er oft raunin, til dýralæknisins að sofna svefninum langa.

Enn verri ævi eiga ýmis smærri gæludýr oft og tíðum eða hverjum er ekki sama þótt ein og ein stökkmús eða naggrís lifi alla sína ævi í mjög litlu og óviðunandi búri við aðstæður sem á endanum gera dýrin geðveik. Dýr eru nefnilega persónur, rétt eins og við manndýrin.

Hvað er til ráða? Að gefa börnum tækifæri til að umgangast og taka þátt í umhirðu alls kyns dýra, bæði húsdýra og gæludýra. Eitt af því sem við Píratar viljum gera í borginni er að auka tækifæri barna til umgengni við dýr, bæði í Húsdýragarðinum og eftir fleiri leiðum. Með kunningsskapnum verður til skilningur og væntumþykja. Það er til marks um siðun samfélags hversu vel það hugsar um dýrin, sem hafa sama tilverurétt á jörðinni eins og við manndýrin. Þess utan, ef við veitum dýrum illan aðbúnað er fullt eins líklegt að við látum skoðanir okkar á goggunarröð lífsgæða ná til mannfólks.

Því miður er oft hænuhopp þarna á milli, að finnast dýr lítilsigld og að finnast fólk sem hvorki er ríkt eða valdamikið slíkt hið sama. Þetta er mjög augljóst í þeim löndum þar sem gjáin á milli örbirgðar og auðæva er gríðarlega breið og nánast ókleif yfirferðar, þar eru mannslíf hræódýr og dýravelferð hverfandi. Við skulum ekki hafa þetta svona hjá okkur. Komum vel fram við menn og málleysingja.

*Fyrirsögnin er titill kvæðis eftir Stefán Hörð Grímsson.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×