Skoðun

Ég er Pírati út af skólamálum

Katla Hólm Vilbergs Þórhildardóttir skrifar
Samfélagið skiptir mig máli, ég elska Reykjavík. Framtíð samfélagsins er mér hugleikin og ég elska börnin í Reykjavík. Ég hef verið svo heppin að fá að vinna á frábærum starfsstað, með frábæru fólki og frábærum börnum undanfarna tvo vetur. Ég er líka svo heppin að vera móðir eins þessara frábæru barna og vegna hans og vinnu minnar hef ég átt í samstarfi við skólann sem hann gengur í. Þar hef ég frá fyrstu kynnum mætt einhverjum þeim mesta velvilja starfsfólks frá upphafi skólaferils barnsins míns. Hann er eitt af þessum börnum sem þarf og fær mikinn stuðning í skólanum og frístund. Annað slagið reynist það skólanum erfitt sökum starfsmannaleysis en aldrei nokkurn tímann hef ég fundið fyrir því að hann sé óþarfa fyrirhöfn. Það er nefnilega þannig að í skólanum vinnur fjöldinn allur af fólki, fagmenntað og minna menntað, við að mennta þessi börn. Menntun á sér ekki einungis stað inni í skólastofunni því börnin verða líka að læra að umgangast hvort annað og þau eiga misauðvelt með það.

Hugsjón Skóla án aðgreiningar er nauðsynleg og falleg en raunin er sú að hún gengur ekki nógu vel. Það er ekki vegna starfsfólksins, sem vinnur hvern dag óeigingjarnt starf á skítalaunum, heldur er það kerfið. Hið ósýnilega bákn sem vofir yfir öllu starfi menntakerfisins, lítur á tölur á blaði en pælir ekkert í einstaklingnum sem býr þar að baki. Þetta kerfi hefur skólana í taumi og heldur þannig aftur af starfinu og börnunum okkar. Píratar vilja auka fjármagn í skólana, gefa kennurum og nemendum það svigrúm sem þau þarfnast í starfinu, hleypa foreldrum að ákvarðanatöku í auknu magni og hækka laun kennara svo að þau standist samanburð við OECD löndin. Kennarar þurfa frjálsar hendur, skólarnir þurfa meira fjármagn, foreldrar og nemendur eiga að fá að taka þátt í ákvörðunum, launin þurfa að hækka! Því að framtíð samfélagsins er í húfi. Þess vegna er ég Pírati.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×