Þá er það lítið mál að gera öllum kleift að fylgjast með útgjöldum og fjárreiðum bæjarins í gegnum vef Garðabæjar með því að gera þessar upplýsingar aðgengilegar rafrænt. Þannig eykst gagnsæi og aðhald í bæjarrekstrinum. Við, fólkið í bænum eigum að geta treyst því að bæjaryfirvöld virði sínar eigin innkaupareglur þannig að að tryggt sé að gengið sé að hagstæðustu tilboðum hverju sinni og að allir eigi möguleika á að sinna verkefnum fyrir bæinn.
Þá er orðin brýn þörf að efla skóla- og velferðarmál. Öll börn eiga að njóta jafnræðis í bænum hvort heldur er varðar skóla, tónlistarnám eða íþrótta og æskulýðsstarf. Þannig er það ekki í dag. Framlag bæjarsjóðs með hverju barni í grunnskóla (án húsnæðiskostnaðar) er hærra til einkaskóla, heldur en bæjarskóla í bænum.

Við viljum sjá byltingu í stígagerð fyrir hjólreiða- og göngufólk og að bærinn leiti sérfræðiaðstoðar í því sambandi. Garðbæingar eiga að hafa um það að segja hvar við viljum að göngustígar séu lagðir í Garðabæ, til að mynda við hraunjaðarinn neðan við Flatir, á Álftanesi eða um Arnarnesið. Leita á samstöðu meðal bæjarbúa um slíkt átak og það á ekki að vera ákvörðun fárra að þeir séu lagðir eða ekki lagðir eða hvar. Það á heldur ekki að vera ákvörðun fárra hvort eða hvenær farið er í fjárfrekar veglagningar um náttúruperlur í landi Garðabæjar. Hlustum á raddir fólksins í bænum.