Þrír íslenskir keppendur hafa lokið keppni í Mannheim í dag á seinni degi íslenska hópsins.
Sindri Hrafn Guðmundsson kastaði 71,48 metra og lenti hann í þriðja sæti. Sindri var einungis 3 sentímetrum frá öðru sætinu og rúmum hálfum metra frá efsta manni sem var heimamaðurinn Jonas Bonewit.
Ísland átti einnig tvo keppendur í 200 metra hlaupi karla. Kolbeinn Höður Gunnarsson endaði í sjöunda sæti á 21,38 sekúndum, en það er jöfnun á hans persónulega meti. Jóhann Björn Sigurbjörnsson lenti tveimur sætum neðar á 21,43 sekúndum.
Aníta Hinriksdóttir er eini íslenski keppandinn sem á eftir að ljúka leik í dag, en hún á eftir að hlaupa í 800 metra hlaupi stúlkna.

