UFC sendi í dag frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kom að miðum á bardagakvöld Gunnars Nelson í Stokkhólmi í næstu viku hafi verið fjölgað.
Bardaginn fer fram í Globen-höllinni í Stokkhólmi þann 4. október og segir í tilkynningunni að sætaskipan í höllinni hafi verið endurskipulögð í því skyni að geta boðið fleiri miða til sölu.
Samkvæmt tilkynningunni hefur eftirspurn eftir miðum á bardagakvöld UFC aldrei verið jafn mikil en auk Gunnars munu sex sænskir bardagamenn berjast þetta sama kvöld. Bardagi Gunnars gegn Bandaríkjamanninum Rick Story verður þó aðalbardagi kvöldsins.
Gunnar á að baki þrettán sigra í fjórtán MMA-bardögum og eitt jafntefli. Hann hefur unnið alla fjóra bardaga sína á vegum UFC.
Story er þrítugur reynslubolti og hefur unnið sautján bardaga á atvinnumannaferlinum en tapað átta. Hann er þó aðeins tveggja manna sem hefur unnið Johny Hendrcks, ríkjandi UFC-meistara í veltivigt.
