Bókin „Harmleikur í Héðinsfirði“, eftir Margréti Þóru Þórsdóttur, var gefin út fyrir fimm árum um slysið en þar er þess getið að níu ára strákur á bænum Reyðará, Hjalti Einarsson, hafi síðastur séð flugvélina á lofti. Rannsóknarnefnd heyrði vitnisburð Hjalta á sínum tíma en hann lýsir því nú í fyrsta sinn opinberlega í fjölmiðlum sem hann sá frá sjávarbakkanum við Reyðará.

„Svo veður hún náttúrlega þarna framhjá. Og ég sé að hún er það lágt, - ég er á bakka sem er eitthvað um tuttugu metra hár. Ég sé sem sagt í gegnum gluggaröðina og út í gegnum vélina, - sé farþegana ágætlega. Þetta náttúrlega tekur mjög stutt af, fljótt af.
Og ég held því fram að það hafi farþegar veifað mér þarna. Ég held að það sé nokkuð öruggt. En þeir hljóta nú að hafa verið svolítið stressaðir, - að vera svona lágt flogið,“ sagði Hjalti.
„Og vængurinn - í raun og veru vængendinn - hann er neðan við grastorfuna sem ég stend á. Og svo fór hún þarna austur með og þokan var í eitthvað um fimmtíu metra hæð á Hvanndölunum.“
Hjalti segir að þokan hafi síðan fallið niður að sjó og þannig alveg orðið dimmt en hann sá flugvélina hverfa inn í þokuna.
Flakið fannst rúmum sólarhring síðar, í hlíðum Hestfjalls aðeins um tvo kílómetra frá Reyðará, og kom þá í ljós að allir 25 um borð höfðu farist.
Nánar var rætt við Hjalta í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í kvöld.
