Í gróðurhúsi við Grindavík hefur ORF líftækni vakið athygli heimsfjölmiðla fyrir að nýta erfðabreytt bygg í gerð frumuvaka til framleiðslu snyrtivara. Kristinn Grétarsson, forstjóri ORF líftækni, nefndi sem dæmi um árangur sölustarfs að vara frá fyrirtækinu væri nú sú mest selda um borð í flugvélum British Airways og sú fyrsta sem seldist meira en áfengi og tóbak.
Bláa lónið, affall úr Svartsengi, sem sennilega yrði ekki leyft í dag, er orðinn vinsælasti ferðamannastaður Íslands og grunnur nýsköpunar í húðvöruiðnaði. Ása Brynjólfsdóttir, rannsóknar- og þróunarstjóri Bláa lónsins, segir að það sé orðið eitt af þekktustu vörumerkjum landsins og snyrtivörur Bláa lónsins sennilega mest seldu íslensku snyrtivörurnar.
Í fréttum Stöðvar 2 í gær var sagt frá dýrasta matfiski Íslands, Senegal-flúrunni, sem vex upp í affallssjó frá Reykjanesvirkjun í eldisstöð Stolt Sea Farm. Þar við hliðina reka útgerðarfyrirtæki Grindvíkinga, Þorbjörn og Vísir, fiskþurrkunina Haustak, sem nýtir jarðvarma. Þar fer ekki aðeins fram þurrkun þorskhausa heldur jafnframt margvísleg nýsköpun í gufuþurrkun matvæla. Víkingur Víkingsson, framkvæmdastjóri Haustaks á Reykjanesi, sýndi hvernig nota mætti jarðvarmatæknina til að þurrka ávexti.
Þá hafa á síðustu dögum birst fréttir af hátæknifyrirtækinu Carbon Recycling, sem þróar aðferðir til að nýta koltvísýring frá HS Orku til metanólframleiðslu í Svartsengi.
Albert Albertsson verkfræðingur, einn af elstu starfsmönnum HS Orku og áður Hitaveitu Suðurnesja, segir að við rekstur og viðhald orkuveranna í Svartsengi og á Reykjanesi starfi nú um 30 manns. „En það eru um og yfir 500 manns sem starfa í þessum hliðarfyrirtækjum.“
„Þrátt fyrir að hér sé framleitt rafmagn þá er líka spa-svæði hér og hér eru framleiddar snyrtivörur á heimsmælikavarða,“ segir Kristín Vala Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri Auðlindagarðs HS Orku.

Í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 í kvöld er nánar fjallað um atvinnustarfsemi sem skapast hefur vegna nýsköpunar- og þróunarstarfs út frá orkuverunum á Suðurnesjum.