Skoðun

Engin skólagjöld!

Sóley Tómasdóttir skrifar
Undanfarna daga hefur skynsamt fólk keppst við að gagnrýna hugmyndir Viðskiptaráðs um innheimtu skólagjalda við Háskólann. Eðlilega. Norrænt velferðarsamfélag innheimtir ekki skólagjöld, enda byggir það á jafnrétti til náms. Allir eiga að hafa tækifæri til að mennta sig og rækta hæfileika sína – þannig tryggjum við kraftmikið, skapandi og gott samfélag.

Tækifæri fólks eru vissulega háð mörgum samverkandi breytum en hér verður þó aðeins einblínt á fjárhagsleg áhrif. Ef okkur er alvara með hið norræna velferðarsamfélag, jöfnu tækifærin og gjaldfrelsið þarf að endurskoða ansi margt.

Í 20 ár hefur leikskólinn verið viðurkenndur og skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Þar njóta yngstu börnin menntunar í samræmi við aldur og þroska. Fyrir það greiða reykvískir foreldrar hundruð þúsunda á ári. Grunnskólinn er lögbundinn og gjaldfrjáls að nafninu til. Í Reykjavík er þó rukkað fyrir afmarkaðan hluta skóladagsins, hádegisverðinn (fyrir utan frístundaheimilin sem ekki verður fjallað um hér). Fyrir hann greiða foreldrar tæpar 60 þúsund krónur á ári. Opinberir framhaldsskólar innheimta 24 þúsund á ári í innritunar- og efnisgjald og innritunargjald í HÍ er 60 þúsund á ári.

Í Reykjavík ríkir ekki jafnrétti til náms. Til eru dæmi um börn sem ekki fara í leikskóla af fjárhagslegum ástæðum. Á síðasta ári var fimm börnum vikið af leikskólum borgarinnar vegna vanskila foreldra. Hvort tveggja er óásættanlegt. Börnin eru ekki mörg, en það skiptir engu máli. Mismunun er ekkert réttlætanlegri gagnvart fáum en mörgum. Gjaldtakan hefur einnig áhrif á lífskjör barnafólks og tækifæri þess til menntunar á efri stigum og eru þá ótalin önnur afleidd áhrif.

Eigi hér að ríkja raunverulegt jafnrétti til náms verða öll skólastig að vera gjaldfrjáls. Það krefst endurskoðunar á nýtingu sameiginlegra sjóða, skatta og útsvars. Slík endurskoðun krefst svo aftur hugrekkis og stefnufestu. Vinstri græn hafa lýst sig reiðubúin í þá vinnu. Á næsta kjörtímabili verður að endurskoða gjaldheimtu borgarinnar og vinna áætlun um gjaldfrjálsa þjónustu við börn. Þannig bætum við lífskjör barnafjölskyldna og stuðlum að raunverulegu jafnrétti til náms.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×