Skoðun

Biophilia – verk­efni um skapandi kennslu

Eygló Harðardóttir skrifar

Hvernig má örva krakka frekar í námi, auka virkni þeirra, vekja með þeim forvitni og gera námið sem skemmtilegast? Um þetta fjallar verkefnið Biophilia sem er eitt af stórum verkefnum formennskuárs Íslands í norrænu samstarfi. Um 2,8 milljónir danskra króna renna til verkefnisins á þessu ári, sem nemur tæpum 60 milljónum íslenskra króna.



Vísindamenn í skólastofunni

Verkefnið felst í þróun kennsluaðferða þar sem tónlist, tækni og vísindi eru tvinnuð saman á nýstárlegan hátt til að örva skynjun og áhuga barna á náttúrufyrirbærum og eðlisfræði. Hugmyndina má rekja til tónlistarkonunnar Bjarkar Guðmundsdóttur. Hefðbundið kennsluform er brotið upp og allir aldurshópar vinna saman, þvert á námsgreinar og fagsvið. Vísindakenningar öðlast líf þar sem krakkarnir fá sjálfir að prófa þær á skemmtilegan og einfaldan hátt og námið verður því fróðlegur leikur sem skilur eftir sig þekkingu og áhuga á frekara námi í tækni og vísindum.



Komdu og skoðað‘í kistuna mína

Þegar hafa hátt í 30 íslenskir skólar tekið þátt í verkefninu Biophiliu og nú er stefnt að því að börn annars staðar á Norðurlöndunum fái að njóta þess líka. Þróaðar verða svokallaðar kistur sem innihalda kennslumyndbönd, spjaldtölvur og annað tæknilegt sem til þarf. Hvert og eitt Norðurlandanna mun búa að einni kistu sem flyst milli skólanna til að kynna kennsluaðferðina á tungumáli viðkomandi lands.



Vísindasöfn á Norðurlöndum munu einnig koma að verkefninu sem og háskólar og menningarsöfn. Á slóðinni biophiliaeducational.org er verkefnið kynnt á myndrænan hátt. Árið 2016 fer fram mat á árangri verkefnisins. Það er von mín að Biophilia takist vel og verði grunnur að þróun nýrra kennsluhátta sem veita börnum og ungmennum gott veganesti út í lífið.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×