Skoðun

Hjúskapur hælisleitenda

Toshiki Toma skrifar
Samkvæmt fréttum í fjölmiðlunum þann 8. maí og 12. maí hafa tveir hælisleitendur sem báðir eru makar Íslendinga fengið tilkynningu um að þeim sé vísað úr landi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og hefur öðrum þeirra þegar verið vísað úr landi.

„Hjón eru í hvívetna jafnrétthá í hjúskap sínum og bera jafnar skyldur hvort gagnvart öðru og börnum sínum. Þeim ber að sýna hvort öðru trúmennsku, styðja hvort annað og gæta sameiginlegra hagsmuna heimilisins og fjölskyldu.“ (hjúskaparlög 2.gr.)

Þetta ákvæði bendir á hvernig hjúskaparlögin skilja hugtakið hjúskapur. Hjúskapur er ekki brandari eða smábiti af köku. Í hjúskap axlar fólk ábyrgð og ber skyldur sem hjón. En það upplifir líka gleði hjónabandsins og blessun.

Réttindi til hjúskapar eru því mikilvægur þáttur í lífi okkar og ekki síst að njóta hjónalífsins í raun. Við getum rifjað upp hve mikil umræða átti sér stað í þjóðfélaginu þegar um hjúskap samkynhneigðs fólks var að ræða. Og það á að vera það þegar málefnið er svo mikilvægt.

Hver er rökstuðningurinn?

En eru hjúskaparréttindi og hjónalíf hælisleitenda þá öðruvísi en hjónaband okkar „venjulega“ fólksins?

Nú virðast yfirvöld telja að staða lögverndaðs hjúskapar sé lægri en staða Dyflinnarreglugerðarinnar þegar hælisleitandi er aðili málsins og hjúskaparréttindi þeirra séu næstum einskis virði og eigi ekki skilið sérstaka athugun.

Hver er rökstuðningur þess hjá yfirvöldunum? Hver er skilningur þeirra á samræmi milli ákvörðunar um brottvísun maka Íslendinga og annarra borgaralegra réttinda sem allir á Íslandi eiga að njóta?

Brottvísun hælisleitanda sem jafnframt er maki Íslendings er ekki jafneinfalt mál og vísan í „Dyflinnarreglugerð“ eða annar smávandi í hælisumsókn getur réttlætt, að mínu mati.

Ég óska að yfirvöld sýni fram á eigin rökstuðning um málið og biðji þjóðfélagið einnig um sitt álit áður en brottvísun af þessu tagi verður framkvæmd aftur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×