Skoðun

Ber að selja Óla Palla?

Jakob Frímann Magnússon skrifar
Útvarpsgjald var á sínum tíma innleitt í því skyni að renna traustum stoðum undir starfsemi Ríkisútvarpsins (RÚV), eftir að stofnuninni var fyrirvaralaust gert að axla lífeyrissjóðsskuldbindingar er nema milljörðum króna.

Einhverra hluta vegna hafa stjórnmálamenn síðan á undanförnum árum tekið til við að verja útvarpsgjaldinu til ýmissa ólíkra verkefna, sem eru allsendis óskyld RÚV. Er það í senn óskiljanlegt og ólíðandi og ber að leiðrétta án tafar.

Vanhugsaðar og fjárfrekar byggingarframkvæmdir í Efstaleiti 1 hófust á síðustu öld og er enn vart að fullu lokið. Steinsteypubrölt þetta hefur verið og er enn afar þungur fjárhagslegur baggi á RÚV.

Galnar en lífseigar hugmyndir

Ríkinu ber að kaupa umrætt hús og gera stofnuninni þannig kleift að losa sig úr lamandi skuldafjötrum og einbeita sér að meginhlutverki sínu sem er að sinna íslenskri dagskrárgerð, varðveislu og skráningu menningarsögu okkar.

Þá skal þess eindregið óskað að linna megi síendurteknum bollaleggingum um að selja beri Rás 2. Hún er útbreiddasta útvarpsstöð landsins, sjálf mjólkurkýr útvarpssviðs RÚV sem mestra auglýsingatekna aflar en minnst dagskrárframlög hlýtur.

Slíkar vangaveltur eru glórulausar með öllu, leysa engan fjárhagsvanda og eru hrein móðgun við hlustendur Rásar 2 og ekki síður þá skapandi íslensku hryntónlistarmenn sem um áratugaskeið hafa mátt reiða sig á eina ófrávíkjanlega opinbera stoð í öllu sínu starfi, innan lands og utan, Rás 2.

Rás 2 hefur staðið með íslenskri útgáfu og tónlistarfólki svo af ber, hefur varpað íslenskri tónlist um árabil til tuga erlendra útvarpsstöðva, skipulagt innlegg Íslands á risamörkuðum á borð við Eurosonic og lagt grunninn að því ótrúlega ævintýri sem sókn íslenskrar tónlistar á erlenda markaði er. Auk þessa hefur stöðin valið sívaxandi fjölda íslenskra laga á spilunarlista sína sem sl. þrjú ár hefur leitt til yfir 50% hlutfalls íslenskrar tónlistar.

Á meðan nýgild íslensk hryntónlist, sem dáð er um allan heim, má sætta sig við heil 5% af heildarframlögum ríkis og sveitarfélaga til tónlistarlífs í landinu(!), er þeim tilmælum eindregið beint til bæði almennings og stjórnmálamanna að láta Rás 2 hér eftir njóta sannmælis, efla hana og tala upp – ekki niður.

Sama gildir um RÚV sem með réttu ber að vera þjóðarspegill sem við getum speglað okkur í með gleði og stolti.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×