Friðrik Dór Jónsson fer út til Vínarborgar til að syngja bakraddir í laginu Unbroken sem sigraði Söngvakeppni Sjónvarpsins um helgina. Lagið, sem flutt er af Maríu Ólafsdóttur, er framlag Íslands í Eurovision í ár.
Í samtali við Vísi í morgun sagði Friðrik Dór að honum litist vel á hugmyndina um að syngja bakraddir en hann staðfesti svo við Síðdegisútvarp Rásar 2 í dag að hann yrði með í atriðinu. Þá var þó ekki búið að ganga frá því endanlega en hann sagði hugmyndina hafa komið upp strax á laugardagskvöld.
„Já já, ég er klár í þetta verkefni en hef samt ekki rætt þetta almennilega við þá í StopWaitGo,“ sagði Hafnfirðingurinn Friðrik Dór í samtali við Vísi í morgun. Þremenningarnar í StopWaitGo áttu bæði lögin í úrslitaeinvígi söngvakeppninnar um helgina en þar mættust þau María og Friðrik Dór.
