Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er mættur í Héraðsdóm Reykjavíkur þar sem fram fer aðalmeðferð í markaðsmisnotkunarmáli á hendur níu fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings. Magnús mætti í fylgd fangavarða en hann var á dögunum dæmdur í þriggja ára fangelsi í Hæstarétti fyrir aðild sína að Al-Thani málinu.
Auk Magnúsar eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, ákærðir í málinu. Hreiðar Már var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í Al-Thani málinu en Sigurður hlaut fjögurra og hálfs árs dóm. Hreiðar Már og Sigurður hafa ekki mætt í dómssal enn sem komið er en rúmar tvær vikur eru þar til Hreiðar Már, Magnús og Sigurður eiga að gefa skýrslu.
Fjórði dagur í aðalmeðferðinni stendur yfir en reiknað er með því að aðalmeðferðinni ljúki þann 22. maí samkvæmt dagskrá.
