Íslenska karlalandsliðið í blaki mætti Mónakó nú í kvöld og þurfti að játa sig sigrað, 3-0.
Bæði liðin töpuðu fyrstu leikjum sínum á mótinu. Íslendingar töpuðu á móti Lúxemborg í gær og Mónakó fyrir San Marínó.
Íslendingar komu mun ákveðnari til leiks og náðu góðu forskoti með sterkum vörnum og sóknum og komust yfir 18-13. Mónakó átti þá góðan kafla í leiknum og jafnaði 19-19.
Eitthvað misstu strákarnir móðinn við það og Mónakó vann hrinuna 25-22. Íslensku strákarnir byrjuðu aðra hrinu líka betur og komust yfir 4-1. Hægt og bítandi nálguðust Mónakó menn þá og jöfnuðu loks í 9-9 og skriðu fram úr Íslendingunum.
Hávörn íslenska liðsins var mjög góð í byrjun en þegar leið á leikinn fór allt niður á við. Mónakó menn unnu aðra hrinu 25-16.
Lið Mónakó kom sterkara til leiks í þriðju hrinu og komst í 3-0 . Hrinan var nokkuð jöfn en með of mörgum mistökum íslenska liðsins fengu Mónakó menn ódýr stig og unnu hrinuna 25-22 og þar með leikinn 3-0.
Stigahæsti leikmaður íslenska liðsins var Fannar Grétarsson með 10 stig og Adrien Gueru skoraði 12 fyrir Mónakó.
Á morgun spila bæði íslensku liðin síðustu leikina sína á mótinu. Konurnar við Lúxemborg klukkan 18:00 og karlarnir við San Marínó klukkan 20:30.
Öruggt hjá Mónakó gegn Íslandi
