Breiðablik vann 1-0 sigur á Val í stórleik umferðarinnar og þriðja tap Valsmanna í röð þýðir að þeir hafa sagt bless við titilbaráttuna í sumar. FH-ingar halda þriggja stiga forskoti á KR en bæði lið unni sína leiki, FH 3-2 upp á Skaga og KR 2-0 á heimavelli á móti Fylkismönnum sem töpuðu þar fyrsta útileiksumarsins. Eyjamenn sendu Leiknismenn aftur niður í fallsæti með sigri í Efra-Breiðholtinu og Keflvíkingar náðu loksins í stig í 1-1 jafntefli á móti Fjölni. Þá skildu Stjarnan og Víkingur jöfn.
Umfjöllun og viðtöl úr öllum sex leikjum umferðarinnar:
Leiknir 0-2 ÍBV
Stjarnan 1-1 Víkingur
Valur 0-1 Breiðablik
ÍA 2-3 FH
Keflavík 1-1 Fjölnir
KR 2-0 Fylkir

... Ásmund Arnarsson, þjálfara ÍBV
Eyjamenn voru búnir að tapa þremur fyrstu leikjum sínum undir stjórn Ásmundar og þessi sigur var langþráður fyrir ÍBV-liðið í harðri fallbaráttu Pepsi-deildarinnar. Eyjamenn unnu þarna ekki bara fyrsta sigurinn undir stjórn Ásmundar heldur var þetta einnig fyrsti útisigur liðsins í Pepsi-deildinni í sumar. Sigurinn kom þeim líka upp fyrir Leikni og upp úr fallsæti.
... Jonathan Glenn, framherja Breiðabliks
Jonathan Glenn tryggði Blikum gríðarlega mikilvægan sigur á Val, sigur sem hélt þeim inn í toppbaráttunni. Glenn hefur skorað í fyrstu tveimur leikjum sínum í byrjunarliðinu og Blikar hafa unnið þá báða. Liðsfélagarnir hafa reyndar stundað það að skjóta í hann og inn í þessum leikjum en í báðum leikjum hafa mörk Glenn komið Blikum í 1-0 sem er gríðarlega mikilvægt fyrir lið sem fær varla mark á sig.
... Atla Viðar Björnsson, framherja FH
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, er loksins búinn að átta sig að Atli Viðar Björnsson er rétti maðurinn í framlínu FH-liðsins og hundrað marka maðurinn hefur eins og oft áður mætt á tánum þegar Heimir kallar. Atli Viðar hefur nú skorað í þremur leikjum í röð og án þessara fjögurra marka hefði FH-liðið fengið sjö stigum færra í þessum þremur leikjum. Fjögur mörk Atla Viðars þýða hinsvegar að FH er með þriggja stiga forskot á toppnum.

... Ólaf Jóhannesson, þjálfara Vals
Valsmenn töpuðu þriðja leiknum sínum í röð og eru út úr baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Valsliðið hefur aðeins skorað eitt mark í þessum þremur leikjum og virðist hreinlega fyrirmunað að skora þessa dagana. Áhorfendur Stöðvar 2 fengu líka landsliðs-Ólaf í viðtal eftir leik, þurr á manninn og stuttur í svörum, skiljanlega pirraðan eftir enn eitt nauma tapið. Staðan er ekki alltof björt fyrir bikarúrslitaleikinn um næstu helgi því auk slæms gengis hafa lykilmenn Valsliðsins hafa verið að detta út í meiðsli.
... sóknarmenn Leiknismanna
Freyr Alexandersson, þjálfari Leiknisliðsins, taldi sautján marktækifæri hafa farið forgörðum þegar Leiknisliðið stóð uppi stigalaust eftir fallbaráttuslag á móti Eyjamönnum. Miðvörður Leiknisliðsins er sá eini sem hefur skorað í síðustu fjórum leikjum liðsins. Leiknir hefur unnið þrjá leiki í sumar og alltaf tapað næsta leik á eftir. Tapið á móti ÍBV þýðir að Leiknismenn sitja aftur í fallsæti deildarinnar og hafa aðeins náð í 5 af 18 stigum í boði í sumar á móti liðunum fjórum sem eru með þeim í fallbaráttunni.
... Evrópudrauma Fjölnismanna
Fjölnir fékk dauðafæri til að komast upp í fjórða sætið þökk sé þriðja tapi Valsmanna í röð en Fjölnismönnum tókst ekki að vinna botnlið Keflavíkur sem hafði ekki náð í stig á heimavelli síðan í byrjun júní. Ætli Fjölnismenn að koma sér til Evrópu þá þurfa þeir að klára svona leiki sérstaklega þegar þeir komast í 1-0.
... pirraða Stjörnumenn
Stjörnumenn náðu ekki að fylgja eftir fyrsta heimasigri sumarsins í Pepsi-deildinni og urðu að sætta sig við jafntefli á móti Víkingum þar sem Garðbæingar fengu fleiri rauð spjöld (2) en stig. Stjarnan hefur aðeins náð í 7 stig af 24 mögulegum á Samsungvellinum í sumar.

* Jonathan Glenn skoraði bæði sem Eyjamaður og Bliki á móti Val í Pepsi-deildinni í sumar.
* Markatala Breiðabliks í fyrri hálfleik í síðustu 13 Pepsi-deildar leikjum er 10-0.
* Blikar eru búnir að vinna tveimur af þremur 1-0 sigrinum sínum í Pepsi-deildinni í sumar á móti Val.
* Albert Brynjar Ingason er sá eini sem hefur skorað hjá Gunnleifi Gunnleifssyni í Pepsi-deildinni síðan í júní.
* Atli Viðar Björnsson hefur skorað í þremur af fjórum leikjum þar sem hann hefur verið í byrjunarliði FH í Pepsi-deildinni í sumar.
* FH hefur ekki tapað stigi í útileik í Pepsi-deildinni síðan í jafntefli á móti Stjörnunni 26. maí.
* FH hefur skorað 21 mark í síðustu 4 úrvalsdeildarleikjum sínum upp á Akranesi eða 5,3 mörk í leik.
* Fyrsti heimasigur KR í Pepsi-deildinni síðan að liðið vann Leikni 28. júní.
* Þorsteinn Már Ragnarsson hefur skorað í 3 af síðustu 4 sigurleikjum KR í Pepsi-deildinni.
* KR-liðið skoraði jafnmörk mörk í sigrinum á Fylki (2) og í þremur heimaleikjum sínum þar á undan (2).
* Hermann Hreiðarsson hefur tapað öllum 3 leikjum sínum á móti KR sem þjálfari í Pepsi-deildinni og markatalan er -6 (1-7)
* KR-liðið hefur haldið marki sínu hreinu í 6 af síðustu 7 heimaleikjum liðsins í Pepsi-deildinni.
* Leiknir hefur alltaf tapað næsta deildarleik eftir sigur í Pepsi-deildinni í sumar og markatalan í þeim 3 leikjum er -5 (2-7).
* Eyjamenn voru fyrir leikinn búnir að spila 11 útileiki í röð í Pepsi-deildinni án þess að vinna.
* Fjórði heimaleikurinn í Pepsi-deildinni í sumar þar sem Leiknisliðið fær hvorki stig né skorar mark.
* Leiknisliðið skoraði 10 mörk í fyrstu 6 leikjum sínum í Pepsi-deildinni en hefur aðeins skorað 4 mörk í síðustu 9 leikjum sínum.
* Stærsta tap Leiknismanna í Pepsi-deildinni í 55 daga eða síðan á móti Fjölni í Grafarvoginum 15. júní.
* Abel Dhaira er búinn að halda marki ÍBV hreinu í 5 af 7 leikjum sínum í deild (2 af 3) og bikar (3 af 4) í sumar.
* Þórhallur Kári Knútsson er sá eini sem hefur skorað fyrir Stjörnuna á síðustu 235 mínútum liðsins í Pepsi-deildinni.
* Víkingar töpuðu ekki leik í fyrstu fjórum umferðum fyrri umferðar og fyrstu fjórum umferðum seinni umferðar.
* Vladimir Tufegdzic hefur komið tvisvar inná sem varamaður og komið að 6 mörkum Víkings á 58 mínútum í þessum tveimur leikjum (2 mörk, 3 stoðsendingar, 1 skot sem var fylgt eftir).
* Stjarnan hefur fengið á sig mark á 75. til 83. mínútu í fjórum af síðustu fimm leikjum sínum í Pepsi-deildinni.
* Milos Milojevic hefur stýrt Víkingsliðinu einn í fimm leikjum í Pepsi-deildinni í sumar og liðið hefur ekki enn tapað (3 sigrar, 2 jafntefli).

Tómas Þór Þórðarson á Samsungvellinum:
„Præst röltir rólega út af og starir á stuðningsmenn Víkings sem baula á hann allan tímann.“ Eftir að Michael Præst fékk beint rautt spjald
Ingvi Þór Sæmundsson á Norðurálsvellinum:
„Af hverju er þessi maður ekki alltaf í byrjunarliðinu!!! Kominn með fjögur mörk í síðustu þremur deildarleikjum.“ Eftir að Atli Viðar Björnsson skoraði sitt annað mark á móti ÍA.
Árni Jóhannsson á Nettóvellinum:
„Þarna var þjálfari heimamanna heppinn. Jóhann Birnir tæklaði með sólann á lofti, fékk dæmda á sig aukaspyrnu en ekkert spjald fór á loft. Þjálfarabónus?“ Eftir tæklingu frá Jóhanni Birni Guðmundssyni.
Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Alvogen-vellinum:
„Fá færi en mikil barátta. Mikið brotið og mikið flautað, bæði lið og allir í stúkunni brjálaðir út í dómarann.“ Eftir fyrri hálfleikinn.
Kristinn Páll Teitsson á Leiknisvellinum:
„Úff, þetta leit illa út. Jose Enrique, markaskorari ÍBV, fer með olnbogann í Brynjar Þór. Úr blaðamannastúkunni leit þetta út sem viljaverk.“ Eftir að Jose Enrique lét Brynjar Þór Hlöðversson finna fyrir sér.
Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:
Jose Enrique, ÍBV - 8
Atli Viðar Björnsson, FH - 8
Böðvar Böðvarsson, FH - 8
Jérémy Serwy, FH - 8
Danny Schreurs, Leikni - 3
Sören Fredriksen, KR - 3
Bestu menn leikjanna í umferðinni:
Jose Enrique, ÍBV
Hallgrímur Mar Steingrímsson, Víkingi
Atli Viðar Björnsson, FH
Frans Elvarsson, Keflavík
Damir Muminovic, Breiðabliki
Pálmi Rafn Pálmason, KR
Umræðan #pepsi365
Vá hvað Kristján Guðmunds kemur vel inn í þetta #pepsi365
— Eiður Ben (@EidurEiriksson) August 10, 2015
Frábær þáttur Pepsímörkin í kvöld, en ég verð að setja út á jakkaval Kristján Guðmundsonar #pepsi365#fotboltinet
— Hjálmar Örn Jóhannss (@hjammi) August 10, 2015
Nokkrir Pepsi leikmenn sáust rúllandi fullir á Palla balli á Gay Pride um helgina. Voru allir mjög lélegir í kvöld #fotboltinet#Pepsi365
— Hlynur Ólafsson (@HlynurOlafs) August 10, 2015
Glenn fékk hann í kassann í síðasta leik og núna í pönnuna. Ekki fagurt en telur. #IðnaðarGlenn#pepsi365
— Henry Birgir (@henrybirgir) August 10, 2015
Verðlaun fyrir leikmann 14. umferðar á leið til Keflavíkur með strætó. Samt til Fjölnismanns #pepsi365pic.twitter.com/QLAQwOw4A5
— Árni Jóhannsson (@arnijo) August 10, 2015
Kristján Guðmunds rokkar bara bomberjacket í fyrsta þætti. #tiskan#pepsi365
— Viktor Bjarki (@vikko14) August 10, 2015
Það eina jákvæða við þetta tímabil er að heyra svekkelsis whiskeyröddina hans Rúnars Páls þegar Stjarnan drullar #pepsi365#fotbolti
— O. G. Bauer (@oddurbauer) August 10, 2015
Samfésballið var að hringja - vilja jakkann sem Kristján tók úr óskilamunum eftir síðasta ball #PönkaraJakkinn#pepsi365
— Maggi Peran (@maggiperan) August 10, 2015
Atvik 14. umferðarMark 14. umferðar
Leikmaður 14. umferðar