Fyrirtæki hefur verið stofnað á Reyðarfirði um þjónustumiðstöð fyrir olíuiðnað. Framkvæmdastjórinn vonast til að gróskumikið atvinnulíf byggist upp í kringum olíuleitina.
Olíuleitarskip ásamt aðstoðarskipi komu inn til Reyðarfjarðar í gær áður en þau héldu á Drekasvæðið í mánaðarlangan rannsóknarleiðangur. Ekki færri en fimm sveitarfélög hafa sóst eftir að þjónusta olíuleitina. Fjarðabyggð hefur augljóslega tekið forystuna og nú hefur verið stofnað þar sérstakt fyrirtæki um þjónustumiðstöð fyrir olíuleit.
Það heitir Arctic Supply Base en að því standa ráðamenn olíuleitarfélagsins Eykons og aðilar á Austurlandi. Haukur Óskarsson, framkvæmdastjóri Arctic Supply Base, segir fyrirtækid ætla að veita þjónustu og hýsa önnur fyrirtæki sem vilja veita þjónustu í kringum olíuiðnað, sem vonandi sé að verða til með þessu fyrsta skrefi núna.

Bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Páll Björgvin Guðmundsson, mætti á bryggjuna til að taka á móti rannsóknarskipinu. Hann segir hafnir bæjarins þjónusta sjávarútveg og flutningaskip til og frá landinu. Þetta sé ein viðbótin við það að þjónusta skip sem hér séu á ferðinni. Hann segir svæðið vel í stakk búið að þjónusta olíuleit.
„Hér eru ákveðnir innviðir sem eru mjög sterkir. Það eru hafnirnar hér og það er alþjóðlegur flugvöllur á Egilsstöðum. Það er náttúrlega búin að vera gríðarleg uppbygging í kringum álverið þannig að það nýtist núna til frekari þjónustu til annarra verkefna,“ segir bæjarstjórinn.
En hvernig umsvif gætu menn séð í kringum olíuleitina?
„Þetta er bara svipað og við höfum séð annarsstaðar í heiminum. Eins og við höfum séð í Noregi, Skotlandi eða í St. Johns, og í Færeyjum, þegar það gekk þar. Þannig að ég held að við munum vonandi sjá hérna gróskumikið atvinnulíf í kringum þetta,“ svarar Haukur Óskarsson.