Þetta kemur fram í tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. Þar kemur jafnframt fram að úttektir á reiðufé hafi numið rúmlega tveimur milljörðum króna. Því má gera ráð fyrir að umtalsvert hærri fjárhæð hafi í raun verið varið í kaup á skyndibita í mánuðinum.
Fjóla Sigurðardóttir, eigandi og matráður matarvagnsins Lobster hut, segir að um áttatíu prósent viðskiptavina hennar séu ferðamenn. „Fyrsta sumarið mitt var í fyrra. Hreinskilnislega sagt þá velti ég rosalega. Ég var með tugi milljóna samtals,“ segir hún. Fjóla bendir á að með milljónunum hafi hún þurft að borga laun og svo sé hún með dýrasta hráefnið í skyndibitaflórunni, humar.
Tölurnar frá Rannsóknarsetri verslunarinnar sýna aukningu um 718 milljónir á milli ára í veitingaþjónustu í heild. Þrátt fyrir það finnur Fjóla frekar fyrir samdrætti sem hún kennir nýrri staðsetningu matarvagnsins um. „En ég var heppin og fékk nætursöluleyfi líka þannig að í sumar er ég búin að vera á Lækjartorgi öll kvöld vikunnar. Í nótt opnum við níu og erum með opið til sex í fyrramálið.“

Geir Gunnar Markússon, næringarfræðingur hjá Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, segir að skyndibiti sé ekki rétti maturinn til að undirbúa ferðamenn undir langa daga í náttúru Íslands. „Ég vildi frekar að þetta væri alvöru íslenskur matur en við erum ótrúlega skyndibitavædd. Það eru skyndibitastaðir úti um allt.“
Hann segir ástæðu fyrir því vera að skyndibiti sé ódýrari en hollari kostur. „Þetta er ekki góð næring og ekki fyrir grey ferðamennina okkar heldur. “
Hann segir hollari skyndibitann ekki vera í boði á þjóðvegum landsins. „Prófaðu að keyra hringinn í kringum landið. Níutíu prósent af mat í vegasjoppum eru skyndibitamatur.“
Geir Gunnar segir vel hægt að ráðast í rekstur á hollum og ódýrum skyndibitastöðum. Það þurfi aðeins viljann til verksins. „Ekki fylla á sjálfan þig eins og þú fyllir á bílinn þinn, það er mjög góð næringarregla.“
