Skoðun

ADHD er eiginleiki

Allir fá eitthvað í vöggugjöf og annað bætist við á lífsins leið. Ég fæddist með ADHD. Sú staðreynd skilgreinir mig ekki. Þetta er bara eiginleiki sem ég erfði frá mínum foreldrum og er órjúfanlegur hluti af mér. Mitt verkefni er hins vegar að fækka þeim stundum sem ADHD er mér flækjufótur og skapa aðstæður þar sem athyglisbresturinn nýtist mér sem jákvæður eiginleiki.

Fram undir þrítugt vissi ég ekkert af þessum eiginleika. Bjó við gott atlæti, gekk vel í skóla, blómstraði í félagslífinu en skildi ómögulega hvað olli þessu þunglyndi sem ég faldi alla tíð svo afskaplega vel. Slysaðist loks til geðlæknis sem mér til undrunar stakk upp á ADHD greiningu.

Auðvitað gera allir mistök og klúðra hlutunum. Stundum. En fyrir einstakling með ADHD er þetta hluti daglegs lífs. Alltaf.

Þar með heyrði þunglyndið sögunni til. Ég skildi loks hvernig ég gat áorkað öllu sem ég kom í verk, en nagaði samtímis af mér bæði handarbökin fyrir ótalin aulamistök og endalausa frestunaráráttu. Um leið áttaði ég mig á hvernig ákveðin „trikk“ höfðu gert mér kleift að fúnkera jafn vel og raun bar vitni. Þetta var minn lykill að því að snúa minni vöggugjöf upp í jákvæðan eiginleika.

Október er alþjóðlegur ADHD vitundarmánuður. Í ár völdu ADHD samtökin að varpa kastljósi á okkar yngstu þegna, m.a. með útgáfu á bókinni „Leikskólar og ADHD, 25 ráð og verkfæri“ ásamt málþingi þann 30. október um leikskóla og ADHD. Segir sig enda sjálft að því fyrr sem rétt greining liggur fyrir, því auðveldari verður eftirleikurinn.

Þú getur lagt þitt af mörkum með því að berjast gegn staðal­ímyndum og fordómum. Mundu bara næst þegar einhver kverúlantinn slengir fram að „allir séu nú með ADHD stundum “ – þá getur þú sagt pollrólega: Nei, ég veit betur!




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×