Skoðun

Miðborg í blóma

Jakob Frímann Magnússon skrifar
Undanfarin ár hafa endurbætur og fjárfestingar í miðborginni verið meiri en nokkru sinni fyrr og er þá langt til jafnað.

Langþráðar endurbætur á Hverfisgötu austan Klapparstígs eru að baki og verður að óbreyttu lokið 2016. Framkvæmdum á Hjartareit / Hljómalindarreit verður lokið upp úr næstu áramótum, en til að svo geti orðið þarf að tryggja opnar akstursleiðir og óheft aðgengi og því bíða endurbætur og framkvæmdir á vestari hluta Hverfisgötu næsta árs.

Umtalsverðar framkvæmdir eru að hefjast í nágrenni Hörpu, þ.m.t. við umfangsmikla fimm stjörnu hótelbyggingu. Bílastæði neðanjarðar, sumpart beintengd bílastæðum Hörpukjallarans, verða sem næst 1.000 er allt verður saman lagt. Hins vegar fækkar nokkuð ofanjarðarstæðum í miðborginni, þ.m.t. við hlið Tollstjórahússins sem þegar hafa verið skermuð af.

Vert er þá að minna á bílastæði í gamla Kolaportshúsinu, í Hörpukjallaranum, í Grjótaþorpi á horni Vesturgötu og Mjóstrætis, í Traðarkoti á horni Hverfisgötu og Smiðjustígs, á Skólavörðustíg við Bergstaðastræti, á Hverfisgötu við horn Vitastígs og í Stjörnuporti gegnt Laugavegi 91. Í öllum þessum húsum er að jafnaði að finna gnótt bílastæða auk þeirra fjölmörgu stæða sem dreifð eru um gjörvalla miðborg.

Sumargötur sem ráðgerðar eru frá maí til septemberloka verða á Laugavegi frá Vatnsstíg (vestan Frakkastígs) að Bankastræti, neðst á Skólavörðustíg, frá Bergstaðastræti að Bankastræti, Pósthússtræti og Austurstræti. Opið verður fyrir umferð og aðföng til hádegis hvern virkan dag.

Á hinum fjölmörgu torgum borgarinnar verður líf og fjör. Ber þar helst að nefna KRÁS, matarmarkaðinn vinsæla á Fógetatorgi sem verður opinn allar helgar í júlí og ágúst, reglubundnar lifandi tónlistarveislur á Ingólfstorgi, fjölbreytilega starfsemi á Torgum í biðstöðu, reglubundna viðburði Götuleikhússins og Hins hússins og reglubundnar uppákomur tengdar Löngum laugardögum sem eru að jafnaði fyrstu laugardagar hvers mánaðar.

Hér hefur verið stiklað á stóru. Í næstu grein verður nánar farið yfir framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í miðborginni á komandi mánuðum og misserum.

Með bestu óskum um gleðilegt og sólríkt miðborgarsumar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×