Forsetaframbjóðandinn Donald Trump nýtur enn mikilla vinsælda í Bandaríkjunum nú þegar stutt er í að forval Repúblikanaflokksins hefjist, þrátt fyrir ýmsar verulega umdeildar fullyrðingar hans í kosningabaráttunni.
Helst hefur Trump vakið athygli fyrir það að heita að meina öllum múslimum aðgöngu að Bandaríkjunum tímabundið ef hann nær kjöri. Blaðamaður New Yorker greinir svo í nýjasta tímariti blaðsins frá því að Trump hafi lofað því að ráðast gegn konum og börnum hryðjuverkamanna á fundi með stuðningsmönnum sínum í desember.
Stuttu fyrir fundinn, sem fór fram í Mesa í Arizona-ríki, hafði Trump lýst því yfir í fjölmiðlum að til að stöðva hryðjuverkamenn sem gætu mögulega gert árás á Bandaríkin þyrfti að ráðast gegn (e. take out) fjölskyldur þeirra. Sjónvarpsmaðurinn Bill O‘Reilly bar þá spurningu upp við Trump á fundinum hvort hann myndi í alvörunni kalla eftir drápi kvenna og barna ef hann yrði forseti.
Að því er greint er frá í New Yorker, svaraði Trump því einfaldlega að hann myndi ganga mjög langt. Við þetta brutust út mikil fagnaðarlæti meðal viðstaddra.
„„Yeah baby,“ öskraði einn maður nærri mér,“ segir í frásögn blaðamannsins Ryan Lizza. „Aldrei áður hef ég verið viðstaddur stjórnmálasamkomu þar sem fólk klappar fyrir morði á konum og börnum.“

