Þrír Íslendingar voru á meðal keppenda á HM í hálfmaraþoni í Cardiff í Wales í dag. Þetta voru ÍR-ingarnir Kári Steinn Karlsson, Arnar Pétursson og Ármann Eydal Albertsson.
Kári kom fyrstur þeirra í mark á tímanum 1:06:49 sem gefur góð fyrirheit um að hann muni ná lágmarki til þátttöku í maraþoni á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar.
Kári á Íslandsmetið í greininni, 1:04:55, sem hann setti í Berlín fyrir ári síðan.
Arnar kom annar Íslendinganna í mark í Cardiff á tímanum 1:08:02 og bætti sinn besta tíma um eina mínútu og 43 sekúndur.
Ármann hljóp á tímanum 01:17:22 en hann kláraði hlaupið ágætlega eftir að hafa lent í erfiðleikum á leiðinni.

