Skoðun

Hvað mega frambjóðendur vera margir?

Þóranna Jónsdóttir skrifar
Við Íslendingar göngum til forsetakosninga þann 25. júní, eftir tvo og hálfan mánuð. Þegar þetta er skrifað hafa 13 einstaklingar lýst yfir áhuga á embættinu. Þrettán! það eru fleiri en nokkru sinni fyrr. Er þetta ekki aðeins of mikið? segja sumir, „sirkus“ segja aðrir, eigum við ekki að leggja embættið niður? Hvar endar þetta eiginlega? En hvað er æskilegt að forsetaframbjóðendur séu margir? Er það í eðli sínu slæmt að þeir séu margir? Ég er þeirrar skoðunar að það sé frekar jákvætt að svona margir hafi stigið fram, og vonandi verða nokkrir fleiri búnir að lýsa yfir áhuga áður en framboðsfresti lýkur.

Samfélagið okkar er að breytast og ég held að þessi mikli fjöldi sé að einhverju leyti tákn um tíðarandann. Það er auðveldara en nokkru sinni fyrr að hafa rödd í samfélaginu og aðgengi að augum og eyrum fólks án þess að það kosti háar fjárhæðir, það hafa samfélagsmiðlar gert kleift. Það er á einni nóttu hægt að fá hundruð eða þúsundir fylgismanna við hugmyndir eða jafnvel byltingar sem enginn átti von á, né hefðu orðið að veruleika fyrir aðeins örfáum árum. Það er fagnaðarefni að fólk vilji láta til sín taka, vilji hafa áhrif, vilji skipta máli, og sé ekki feimið við að stíga fram, það væri verra ef hlutirnir væru á hinn veginn og enginn gæfi kost á sér, enginn þætti nógu góður, eða að fólk væri of hrætt við sleggjudóma götunnar (lesist samfélagsmiðla).

Það má vel vera að það verði meiri vinna fyrir okkur kjósendur að kynna okkur hvað frambjóðendur hafa fram að færa, en aðgengi að upplýsingum er nægt og okkur er ekki vorkunn. Það má vel vera að einhverjir frambjóðendur geri sér ekki grein fyrir hversu mikinn eða lítinn stuðnings þeir geti vænst í raun (sbr. Guðni Th. Jóhannesson í Fréttatímanum þann 24. mars sl.), en það ættu úrslit kosninga að skera úr um. Það má vel vera að reglur um forsetakosningar séu orðnar úreltar og að breyta þurfi fyrirkomulaginu, þá þarf að ráðast í það mál. En þangað til skulum við leggja okkur fram um að tala af virðingu um fólkið sem gefið hefur kost á sér, það að margir gefi kost á sér getur engan veginn talist embættinu til minnkunar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×