Árið hefur verið viðburðaríkt hjá Öglu, en hún hefur bæði verið að leika í Borgarleikhúsinu og auglýsingum ásamt því að koma fram við ýmis tækifæri.
„Það var rosalega gaman að taka þátt í Ísland Got Talent, ég lærði alveg ótrúlega mikið enda mikil reynsla að koma fram á svona stóru sviði. Árið er búið að vera alveg einstaklega skemmtilegt og viðburðaríkt. Ég hef verið að leika mikið bæði í Borgarleikhúsinu og í auglýsingum og svo tók ég þátt í söngvakeppni Samfés þar sem ég lenti í þriðja sæti. Ég mundi klárlega segja að Ísland Got Talent hafi haft rosalega góð áhrif á mig sem söngkonu og hjálpað mér mikið að koma mér áfram í því sem mér finnst skemmtilegast að gera,“ segir Agla Bríet.

„Ég ætla að syngja frumsamið lag eftir Mána Svavarsson, en textann gerðum við í sameiningu. Ég er alveg ótrúlega spennt fyrir að koma fram aftur og leyfa fólki að heyra lagið,“ segir Agla Bríet.
Framtíðin er björt hjá þessari ungu og efnilegu söngkonu og segist hún staðráðin í að halda áfram að koma sér á framfæri enda finnst henni ekkert skemmtilegra en að syngja og koma fram.
„Fljótlega eftir Ísland Got Talent var ég mikið bókuð og hef komið fram við ýmis tækifæri, eins og til dæmis í afmælum, á 17. júní skemmtunum og fleira. Ég er alveg ákveðin í því að fara lengra með sönginn, fólk þekkir mig enn úti götu. Ég er í hljómsveit og æfi dans í Dansskóla Birnu Björns, fram undan er nemendasýning í Borgarleikhúsinu þar sem ég verð líka með tónlistaratriði og svo er ég líka í hljómsveit og við spilum við ýmis tækifæri,“ segir Agla Bríet ánægð.