Íslenska liðið lenti í riðli með Spáni, Slóveníu, Makedóníu, Túnis og Angóla eins og kom fram á Vísi fyrr í dag.
Nú er orðið jafnframt ljóst að strákarnir okkar munu spila sína leiki í riðlinum í borginni Metz. Metz 120 þúsund manna borg í norður Frakklandi nálægt landamærum við Lúxemborg og Þýskalandi.
Leikið verður í Arènes de Metz höllinni sem tekur 4500 manns í sæti. Handboltalið Metz spilar í höllinni en hún er einnig þekkt fyrir að hýsa alþjóðlegt tennismót.
Frakkar völdu sér riðil og spila ekki í París heldur í Nantes. Þeir eru með Póllandi, Rússlandi og Noregi í riðli.
Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu eru meðal annars í riðli með Katar, Svíþjóð og Egyptalandi en sá riðill verður spilaður í París.
Síðasti riðillinn þar sem eru lið eins og Þýskaland, Ungverjaland og Króatía fer síðan fram í Rouen.
Fjögur efstu liðin í hverjum riðli tryggja sér sæti í sextán liða úrslitunum. Leikirnir í sextán liða úrslitunum fara fram í París, Albertville, Lille og Montpellier. Þar fara einnig fram átta liða úrslitin en öll úrslitahelgin verður síðan spiluð í París.
Forsetabikarinn verður aftur á móti spilaður í Brest.
Það er hægt að sjá alla riðlana fjóra og leikstaðina hér fyrir neðan.
Le groupe de la France jouera à Nantes, l'Espagne à Metz, l'Allemagne à Rouen et le Qatar à Paris #Handball2017 pic.twitter.com/XPppLlrADi
— France Handball 2017 (@Hand2017) June 23, 2016