Eygló Ósk synti á 1:00,65 og bætti tíma sinn frá undanrásunum um 24 hundraðshluta úr sekúndu.
Þessi tími nægði Eygló þó ekki til að komast í átta manna úrslit. Síðasta sundkonan inn í úrslitin synti á 59.35 sekúndum en Eygló hefur aldrei synt undir einni mínútu.
Eygló var 1.81 sekúndu á eftir besta tímanum en honum náði bandaríska stúlkan Kathleen Baker. Danska sundkonan Mie Nielsen komst í úrslitin og verður fulltrúi Norðurlanda þar. Seinni riðillinn var hraðari og þaðan komu þrír hröðustu tímarnir.
Eygló endaði í 14. sæti og hækkaði sig um tvö sæti frá undanrásunum. Þetta er annar besti árangur íslenskrar sundkonu á Ólympíuleikum frá upphafi því Hrafnhildur Lúthersdóttir komst í úrslitin í 100 metra bringusundi fyrr í kvöld.
Eygló Ósk hefur þó ekki lokið leik á Ólympíuleikunum en hún keppir í 200 metra baksundi, sinni sterkustu grein, á fimmtudaginn.