Skoðun

Jafnaðarflokkur í 100 ár

Gunnar Ólafsson skrifar
Í ár fögnum við jafnaðarmenn 100 ára sögu stjórnmálahreyfingar okkar á Íslandi. Í mars 1916 var Alþýðuflokkurinn stofnaður sem stjórnmálaarmur Alþýðusambandsins og sókn jafnaðarmanna að betri lífskjörum, mannréttindum og frelsi var hafin. Á fyrstu tveim áratugum tuttugustu aldar bjó Alþýðuflokkurinn við óréttláta kosninga- og kjördæmaskipan. Sem dæmi má nefna að í kosningunum 1934 fengu Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur nánast jafn mörg atkvæði en Framsókn fékk 15 þingmenn kjörna en Alþýðuflokkurinn 10. Alþýðuflokkurinn gekk á móti ríkjandi skipulagi sem lagði áherslu á betri lífskjör, húsnæði, tryggari stöðu á vinnumarkaði, jafnan atkvæðisrétt og félagslegar tryggingar. Flokkurinn náði hægt og bítandi fram sínum baráttumálum, t.d. Vökulögunum árið1921 sem tryggðu sjómönnum sex tíma lágmarkshvíld á sólarhring. Fleiri sigrar fylgdu í kjölfarið eins og lög um verkamannabústaði, löggjöf um alþýðutryggingar (m.a. atvinnuleysistryggingar) árið 1936 og lög um stéttarfélög árið 1938.

Upp úr 1940 skildi leiðir Alþýðuflokks og Alþýðusambands Íslands og jafnaðarmenn klofnuðu í tvo flokka, Alþýðuflokkinn og Sósíalistaflokkinn. Alþýðuflokkurinn átti fram að þessum tíma sæti í ríkisstjórnum, m.a. stjórn hinna vinnandi stétta frá 1934-1938 sem var fyrsta umbótastjórnin og kom mörgum þarfaverkum í framkvæmd. Frá fjórða áratug fram að Viðreisn snerust stjórnmál mikið um sjávarútveg, millifærslu- og haftakerfi sem og utanríkismál sem því miður skiptu jafnaðarmönnum í tvo aðskilda flokka í afstöðu þeirra til Atlantshafsbandalagsins og dvalar varnarliðsins á Íslandi. Árið 1959 tók við svo kölluð viðreisnarstjórn, ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks, sem fram að því höfðu verið andstæðingar í stjórnmálum. Þetta ríkisstjórnarsamstarf var farsælt og er sú stjórn einna þekktust fyrir að afnema að stórum hluta víðtækt haftakerfi sem hafði ríkt fram til ársins 1960.

Aðild Alþýðuflokksins að þeirri ríkisstjórn tryggði einhverja mestu húsnæðisbyltingu í sögu þjóðarinnar í samstarfi við verkalýðshreyfingu og atvinnurekendur þegar gert var stórátak í að útrýma braggahverfum með uppbyggingu á m.a. á heilu íbúðahverfi í Breiðholti. Alltaf var grunnstef jafnaðarmanna um húsnæði leiðarljós í starfi Alþýðuflokksins. Frá lokum Viðreisnar fram til ársins 2000 dreifðust kraftar jafnaðarmanna á fleiri flokka en Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalag sem var arftaki Sósíalistaflokksins. Til að mynda komu fram á sjónarsviðið flokkar eins og Samtök frjálslyndra og vinstri manna, Bandalag jafnaðarmanna og Þjóðvaki sem síðar varð hluti af Samfylkingu. Nýtt stjórnmálaafl, Kvennalistinn, kom fram á níunda áratugnum, og lagði áherslur á mál tengd auknum rétti kvenna, t.d. launajafnrétti kynjanna og aukið aðgengi barna að leikskóla.

Þáttaskil

Árið 2000 urðu þáttaskil í sögu jafnaðarmanna á Íslandi þegar nýr stjórnmálaflokkur varð til, Samfylking með sameiningu Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalistans. Jafnaðarmenn sameinuðust um jöfn tækifæri, betri lífskjör, úrbætur í húsnæðismálum, aukin félagsleg rétttindi, eitt samfélag fyrir alla og nánari tengsl við Evrópu. Allar þessar hugsjónir hafa verið baráttumál jafnaðarmanna í gegnum tíðina, þó svo Evrópuhugsjónin sé tiltölulega nýleg í 100 ára sögu hreyfingarinnar. Jafnaðarmannahreyfing sem byggir á glæsilegri arfleið baráttufólks fyrir 100 árum getur horft stolt fram á veginn, stolt af sínum verkum, baráttuglöð fyrir betra og réttlátara þjóðfélagi. Þeirri baráttu lýkur aldrei og ómetanlegt að á hverjum tíma sé kröftugt og duglegt fólk tilbúið að berjast fyrir þessum réttindum. Ég verð alltaf hrærður þegar ég les um sögu jafnaðarmanna og hve mikið fólk hefur lagt á sig í gegnum tíðina fyrir þessa hugsjón. Þess vegna er ég sannfærður um að Samfylkingin mun dafna og þroskast og halda áfram að gera Ísland að betra samfélagi, öllum til góða. Að þessu sögðu, óska ég öllum jafnaðarmönnum til hamingju með 100 ára afmæli jafnaðarmannahreyfingar á Íslandi. Sækjum til sigurs.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×