„Ég er hrædd um að þau komist að því hvar ég á heima,“ segir Hannah sem dvalið á Íslandi með hléum undanfarin ár en hún er frá Bandaríkjunum. Hún segist vera þannig týpa að hún segi það sem henni finnst. En það hafi samt verið erfitt enda sé hún í grunninn harður Justin Bieber aðdáandi.
„Ég elska tónlistina hans. Þess vegna voru vonbrigðin svona mikil,“ segir Hannah.
Hún segir Justin hafa virkað latan, eins og hann hafi ekki nennt að skemmta áhorfendum. Þá hafi hann „mæmað“ svo til öll lögin.
„Elskan, það er ekki svo erfitt að syngja lögin þín,“ segir Hannah í gagnrýni sinni.

Í umfjöllun Hönnu um tónleikana á fimmtudagskvöldið rekur hún hve mikill aðdáandi hún hafi verið, öll skiptin sem hún tók slaginn fyrir hann og varði hann fram í rauða dauðann. Hún hafi verið svo spennt að sjá hann. Skellt hafi verið í lás í Kópavogi og skipuleggjendur hafi lagt sig alla fram til að gera allt vel úr garði. Hún hafi raunar aldrei séð svo góða skipulagningu á tónleikum.
„Í dag brástu mér Justin. Í dag særðirðu mig. Í dag komst ég að því ég hef lifað í blekkingu öll þessi ár.“
Hannah er ekki aðeins mikill aðdáandi Justins heldur reglulegur gestur á tónleikum poppstjarna. Hún hefur farið á tónleika með Britney Spears, Madonnu, Taylor Swift og fleirum. Þau mæmi líka endrum og sinnum en aðeins þegar þau eru í dansatriðum sem taki svo á að ekki sé hægt að syngja á sama tíma.

Í samtali við Vísi segist Hannah hafa orðið vör við mikla umræðu eftir að fjallað var um gagnrýni hennar á vefsíðunni Menn.is en ekki síður í Facebook-hópnum Beauty Tips. Þar hafi allt ætlað um koll að keyra.
„Það eru örugglega milljón comment. Annað hvort er fólk að segja mér að fara til fjandans eða sammála,“ segir hún. Fólk hafi sagt að hún væri ekki alvöru blaðamaður og þegar í ljós kom að hún er með háskólagráðu í blaðamennsku voru rökin, sem notuð voru til að gildisfella gagnrýnina, þau að hún væri ekki með gráðu í tónlist.
„Þarftu gráðu í tónlist til að skrifa gagnrýni um tónleika Justins Bieber?“ spyr Hannah og hlær. Fyndnustu athugasemdirnar hafi verið frá ungum stúlkum sem hafi hótað henni öllu illu ef þær rækust á hana í miðbænum.
„Þær eru líklega svona fjórtán ára og mega ekki einu sinni vera í bænum,“ segir Hannah létt. Enn séu nokkur ár í að líklegt verði að umræddar stelpur fari að skemmta sér í miðbænum.

Hún þakkar sínum sæla að hafa fengið blaðamannapassa á tónleikana en ekki þurft að borga á bilinu 15-30 þúsund krónur fyrir miða.
Blaðamaður bendir Hönnuh á það hve erfitt geti verið að vera gagnrýnandi í litlu samfélagi á borð við Ísland. Skiptir þá engu hvort um er að ræða tónlist, kvikmyndir, veitingahús eða annað. Hún segist löngu hafa áttað sig á því.
„Þegar ég kom hingað fyrst var ég að skrifa gagnrýni um hljómsveitir og tónleika en nú get ég það eiginlega ekki lengur af því að nú þekki ég alla. Það er furðulegt. En Justin býr ekki hérna, ekki ennþá að minnsta kosti,“ segir Hannah og hlær.
Hún bætir við að fjölmargir hafi komið að máli við sig eða sent sér skilaboð og verið henni hjartanlega sammála um skoðun hennar á tónleikunum á fimmtudaginn.