Heiner Brand, fyrrum landsliðsþjálfari Þýskalands, segir enga ástæða til að draga úr markmiðum liðsins þó svo að Dagur Sigurðsson myndi hætta sem landsliðsþjálfari næsta sumar.
Eins og fjallað hefur verið um síðustu daga gæti Dagur nýtt sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við þýska sambandið í sumar.
Handball Inside greindi frá þessu í upphafi vikunnar og þýskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málið síðan.
Heiner Brand þjálfaði þýska liðið áður með góðum árangri. Hann gerði Þýskaland að Evrópumeisturum 2004 og heimsmeisturum á heimavelli þremur árum síðar.
Sjá einnig: Dagur gæti fengið 75 milljónir í árslaun hjá PSG
„Leikmennirnir munu komast yfir það [að Dagur hætti,“ sagði Brand. Yfirlýst markmið þýska sambandsins er að verða Ólympíumeistari í Tókýó árið 2020.
„Ég sé enga ástæðu til þess að draga úr þessum markmiðum. Við eigum mjög öfluga kynslóð af ungum leikmönnum sem mun berjast um verðlaun óháð því hvað Sigurðsson gerir,“ sagði Brand.
Ef að Dagur ákveður að hætta þá kæmi það Brand mjög á óvart.
„Það væri synd því að hann hefur skilað af sér mjög góðri vinnu og nær vel til leikmannahópsins.“
„En það þýðir ekkert að æsa sig yfir þessu eða vera leiður. Leikmannamál þýska liðsins hafa ekki verið jafn góð og þau eru nú í 20 ár.“
