Ragnheiður Sara var því best af þeim 150 þúsund keppendum út um allan heim sem reyndu sig við sömu fimm þrautir en hver þraut var gefin út á fimmtudegi og stelpurnar höfðu fram yfir helgi til að skila inn æfingunum, annaðhvort með að taka þær upp á myndband eða fá þær vottaðar af fullgildum fulltrúa frá Crossfit samtökunum.
Sara var efst á heimsvísu eftir einvígið við Katrínu Tönju Davíðsdóttur eins og Vísir sagði frá í síðustu viku en þá átti stærsti hluti keppendanna eftir að skila inn sínum æfingum.
Ragnheiður Sara gerði smá mistök í einvíginu og skilaði því aftur inn æfingunum og var þá mun fljótari. Hún kláraði fimmtu og síðustu æfingaröðina á 6:32 mínútum en hafði klárað á 6:56 mínútum í einvíginu.
6:32 mínútur skiluðu Ragnheiði Söru sjötta besta tímann af öllum og það dugði til þess að tryggja henni efsta sætið á The Open. Næsta stig er síðan álfukeppnin en þar keppir Ragnheiður Sara í Ameríkuriðlinum í fyrsta sinn en hún hefur hingað til keppt í Evrópuhlutanum.
Ragnheiður Sara mun reyna í Ameríkuriðlinum að tryggja sér sæti á heimsleikunum sem fara fram í Madison í Bandaríkjunum í ágúst næstkomandi.
Ragnheiður Sara varð í 9. sæti í fyrstu þrautinni, í 14. sæti í annarri þrautinni, í 3. sæti í þriðju þrautinni, í 2. sæti í fjórðu þrautinni og svo í 6. sæti í fimmtu og síðustu þrautinni.
Hún fékk alls 34 stig en markmiðið er að vera með sem fæst stig. Í öðru sæti var Kari Peatce með 38 stig.
Katrín Tanja Davíðsdóttir kláraði á 6:53 mínútum þegar hún vann einvígið sem varð á endanum 24. besti tíminn. Katrín Tanja endaði í tíunda sæti á heimsvísu en þrátt fyrir að vera inn á topp tíu þá endaði hún aðeins í fjórða sætinu af íslensku stelpunum.
Annie Mist Þórisdóttir varð í sjöunda sæti og Þuríður Erla Helgadóttir varð í áttunda sæti. Íslensku dæturnar eru því áfram áberandi meðal bestu crossfit kvenna heimsins. Það má sjá öll úrslitin hér.
Mat Fraser & Sara Sigmundsdottir Win 2017 CrossFit Open#intheopen #crossfitopen #crossfitgames https://t.co/7xRMdR6Bpi
— The Barbell Spin (@TheBarbellSpin) March 28, 2017