Fyrir fjörutíu árum bjuggu yfir fimmhundruð manns á Raufarhöfn en nú er íbúafjöldinn um þriðjungur af því sem mest var. Í viðtali við skólastjórann fyrir þáttinn "Um land allt" síðastliðið sumar kom fram að fækkun barna væri enn meiri.
„Þegar ég byrjaði hér í skóla 1975 þá vorum við hundrað nemendur hérna. Það voru sjö nemendur síðastliðinn vetur,” sagði Birna Björnsdóttir, skólastjóri grunnskóla Raufarhafnar.
„Við erum að vona að botninum sé náð. Nú fer þetta bara upp á við. Það er fyrirsjáanleg fjölgun næsta vetur.”

“Hér er algerlega óplægður akur fyrir stórhuga fólk hvað varðar ferðaþjónustu, - afþreyingu í ferðaþjónustu,” nefnir Silja sem dæmi um tækifærin.
Norðaustanlands telja menn Dettifossveg lykilatriði til að beina ferðamönnum inn á svæðið.
„Við þurfum að fá stjórnvöld inn í þessa hugsun að við þurfum að dreifa ferðamönnum um landið. Einnig að efla landsbyggðina. Hér gæti ferðaþjónusta líka orðið góð undirstaða. En það þarf meira til og við gerum það ekki alveg bara ein,” segir Silja.

„Það er bara gott mannlíf hérna. Það er það núna. En það er ekkert sem segir að það þurfi endilega að búa hérna 500 manns, þó að það hafi verið einu sinni. Samfélagið getur alveg verið jafn gott fyrir því,” segir Svava.
„Hér eru bara íbúar sem þarf að þjónusta og vilja vera hérna. Þetta er staðsetning sem við eigum að halda í, - að vera með fólk,” segir Silja, verkefnisstjóri Raufarhafnar og framtíðarinnar.
Kynningarstiklu þáttarins „Um land allt" frá Raufarhöfn má sjá hér.