Brotsjór ástarinnar Sigríður Jónsdóttir skrifar 30. mars 2017 09:45 Björn Hlynur og Nína Dögg eru í aðalhlutverkum. Mynd/Þjóðleikhúsið Í Vesturbænum býr Alda Ívarsen í virðulegu húsi fyrrverandi landlæknishjónanna, látinna foreldra sinna, og flýtur í gegnum lífið. Hún kennir þýsku í virtum framhaldsskóla, tælir karlmenn þegar henni hentar og ferðast til útlanda á sumrin. Þessi ljóðræna skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur er fyrir löngu orðin klassík og fær nú endurnýjað líf í Kassanum sem sviðsverk. Áhorfendum er boðið að dýfa sér ofan í öldurót hugarheims Öldu, eins konar draumkenndan hliðarheim þar sem tíminn er afstæður og raunveruleikinn líka. Eva Signý Berger hannar þessa veröld af mikilli kostgæfni þar sem gráblá flauelstjöld umlykja bert sviðið, glitrandi en sjúskuð ljósakróna lafir baka til og svartur flygill situr í einu horninu. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar er snjöll; í fyrstu skær og köld en fylgir hugarástandi Öldu lipurlega og verður að lokum djúpblá. Kristinn Gauti Einarsson nálgast hljóðmyndina á svipuðum nótum þar sem andi Davids Lynch svífur yfir vötnum í bland við tónlist frá 9. áratugnum, en lokalaginu er þó algjörlega ofaukið. Í þessum þokukennda bláma dvelur Alda, leikin af Nínu Dögg Filippusdóttur. Hlutverkið er gríðarlega krefjandi enda hverfist verkið um örlög og niðurbrot Öldu í kjölfar sambandsslita. Eftir örlítið höktandi byrjun þá vex Nínu Dögg fiskur um hrygg. Hún finnur þessa fínu línu á milli eymdar og bjartsýni þar sem sveiflan á milli ofsagleði og myrkasta þunglyndis er í senn breið og hröð. Innri hrörnun Öldu endurspeglast í líkamsbeitingu Nínu Daggar sem bognar meira og meira eftir því sem líður á sýninguna, þó verða sumir tælingartaktarnir leiðigjarnir. Björn Hlynur Haraldsson hefur þann einstaka hæfileika að virðast fullkomlega afslappaður á sviði en draga áhorfendur til sín. Anton er í raun ekkert sérlega spennandi maður en Birni Hlyni tekst að gefa þessum borgaralega bókabéusi dýpt. Síðustu ár hefur Edda Arnljótsdóttir sinnt aukahlutverkum í hinum ýmsu sýningum Þjóðleikhússins en stundum gleymist hversu hæf hún er sem leikkona. Hér er hún í hlutverki Ölmu, stóru systur Öldu, og á það til að stela senunni með snörpum tilsvörum og beittum fókus. Yngri kynslóðin á líka sína fulltrúa í sýningunni og framtíðin er greinilega björt í þeim hópi. Snæfríður Ingvarsdóttir hefur alla burði til þess að skara framúr en þó glitti aðeins í reynsluleysi og taugatrekking í fyrri hluta sýningar. Oddur Júlíusson er fjölhæfasti og kannski frambærilegasti ungi leikari landsins um þessar mundir; hér dansar hann, syngur og er jafnvígur á kómík og drama. Leikarahópurinn er semsagt gríðarlega sterkur en Una Þorleifsdóttir á hrós skilið fyrir að láta raunsæið fljúga út um gluggann og finna tón í sviðsetningunni sem hentar skáldverki Steinunnar einstaklega vel. Sömuleiðis er vel til fundið að bæta flæðandi sviðshreyfingum Sveinbjargar Þórhallsdóttur við framvinduna. Þær þenja út súrrealíska andrúmsloftið og endurteknar hreyfingar falla vel inn í sýninguna. En spyrja má af hverju nafn rithöfundarins er á forsíðu leikskrár, eins og svo oft áður, en ekki nafn Melkorku Teklu Ólafsdóttur sem vinnur vel úr upprunalega textanum. Þó verður að segjast að fagurfræðilegur styrkur handritsins orsakast að mestu af gæðum bókarinnar. Umdeilt er hvernig eigi að flokka leikgerðir og líka hversu fyrirferðarmiklar þær eru í íslenskum sviðslistum á kostnað annarra nýrra verka. En ef leikgerðir á að skilgreina sem ný íslensk leikrit, á þá höfundur leikhandritsins ekki að vera skrifaður fyrir texta sýningar frekar en upprunalegur rithöfundur skáldverksins? Tímaþjófurinn er hnitmiðuð og eftirminnileg sýning um hugarástand brotinnar konu. Una heldur fast utan um framvinduna, vinnur vel með gríðarsterkum leikhópi og finnur frumlegar lausnir á flókinni skáldsögu.Niðurstaða: Fagurfræðilega sterk sýning. Birtist í Fréttablaðinu Leikhús Mest lesið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Fleiri fréttir Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Í Vesturbænum býr Alda Ívarsen í virðulegu húsi fyrrverandi landlæknishjónanna, látinna foreldra sinna, og flýtur í gegnum lífið. Hún kennir þýsku í virtum framhaldsskóla, tælir karlmenn þegar henni hentar og ferðast til útlanda á sumrin. Þessi ljóðræna skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur er fyrir löngu orðin klassík og fær nú endurnýjað líf í Kassanum sem sviðsverk. Áhorfendum er boðið að dýfa sér ofan í öldurót hugarheims Öldu, eins konar draumkenndan hliðarheim þar sem tíminn er afstæður og raunveruleikinn líka. Eva Signý Berger hannar þessa veröld af mikilli kostgæfni þar sem gráblá flauelstjöld umlykja bert sviðið, glitrandi en sjúskuð ljósakróna lafir baka til og svartur flygill situr í einu horninu. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar er snjöll; í fyrstu skær og köld en fylgir hugarástandi Öldu lipurlega og verður að lokum djúpblá. Kristinn Gauti Einarsson nálgast hljóðmyndina á svipuðum nótum þar sem andi Davids Lynch svífur yfir vötnum í bland við tónlist frá 9. áratugnum, en lokalaginu er þó algjörlega ofaukið. Í þessum þokukennda bláma dvelur Alda, leikin af Nínu Dögg Filippusdóttur. Hlutverkið er gríðarlega krefjandi enda hverfist verkið um örlög og niðurbrot Öldu í kjölfar sambandsslita. Eftir örlítið höktandi byrjun þá vex Nínu Dögg fiskur um hrygg. Hún finnur þessa fínu línu á milli eymdar og bjartsýni þar sem sveiflan á milli ofsagleði og myrkasta þunglyndis er í senn breið og hröð. Innri hrörnun Öldu endurspeglast í líkamsbeitingu Nínu Daggar sem bognar meira og meira eftir því sem líður á sýninguna, þó verða sumir tælingartaktarnir leiðigjarnir. Björn Hlynur Haraldsson hefur þann einstaka hæfileika að virðast fullkomlega afslappaður á sviði en draga áhorfendur til sín. Anton er í raun ekkert sérlega spennandi maður en Birni Hlyni tekst að gefa þessum borgaralega bókabéusi dýpt. Síðustu ár hefur Edda Arnljótsdóttir sinnt aukahlutverkum í hinum ýmsu sýningum Þjóðleikhússins en stundum gleymist hversu hæf hún er sem leikkona. Hér er hún í hlutverki Ölmu, stóru systur Öldu, og á það til að stela senunni með snörpum tilsvörum og beittum fókus. Yngri kynslóðin á líka sína fulltrúa í sýningunni og framtíðin er greinilega björt í þeim hópi. Snæfríður Ingvarsdóttir hefur alla burði til þess að skara framúr en þó glitti aðeins í reynsluleysi og taugatrekking í fyrri hluta sýningar. Oddur Júlíusson er fjölhæfasti og kannski frambærilegasti ungi leikari landsins um þessar mundir; hér dansar hann, syngur og er jafnvígur á kómík og drama. Leikarahópurinn er semsagt gríðarlega sterkur en Una Þorleifsdóttir á hrós skilið fyrir að láta raunsæið fljúga út um gluggann og finna tón í sviðsetningunni sem hentar skáldverki Steinunnar einstaklega vel. Sömuleiðis er vel til fundið að bæta flæðandi sviðshreyfingum Sveinbjargar Þórhallsdóttur við framvinduna. Þær þenja út súrrealíska andrúmsloftið og endurteknar hreyfingar falla vel inn í sýninguna. En spyrja má af hverju nafn rithöfundarins er á forsíðu leikskrár, eins og svo oft áður, en ekki nafn Melkorku Teklu Ólafsdóttur sem vinnur vel úr upprunalega textanum. Þó verður að segjast að fagurfræðilegur styrkur handritsins orsakast að mestu af gæðum bókarinnar. Umdeilt er hvernig eigi að flokka leikgerðir og líka hversu fyrirferðarmiklar þær eru í íslenskum sviðslistum á kostnað annarra nýrra verka. En ef leikgerðir á að skilgreina sem ný íslensk leikrit, á þá höfundur leikhandritsins ekki að vera skrifaður fyrir texta sýningar frekar en upprunalegur rithöfundur skáldverksins? Tímaþjófurinn er hnitmiðuð og eftirminnileg sýning um hugarástand brotinnar konu. Una heldur fast utan um framvinduna, vinnur vel með gríðarsterkum leikhópi og finnur frumlegar lausnir á flókinni skáldsögu.Niðurstaða: Fagurfræðilega sterk sýning.
Birtist í Fréttablaðinu Leikhús Mest lesið Einstakur garður í Mosfellsbænum Lífið Kappleikar 2024: Bara tveir héldu með Donald Trump Lífið Steldu stílnum af Áslaugu Örnu Tíska og hönnun Kappleikar: Skörp orðaskipti og skeytasendingar Lífið Óhrædd við að fara sínar eigin leiðir Lífið Sterkustu hjón landsins selja íbúðina Lífið Húðrútína Birtu Abiba Lífið Með stórstjörnum í væntanlegri kvikmynd Marvel Bíó og sjónvarp Vissu hvorki verðið á strætómiða né bjór Lífið Svar Bents við hatursorðræðu gegn útlendingum Lífið Fleiri fréttir Helgi Björns tryllti lýðinn á 40 ára afmæli Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira