Ólafur er markvarðarþjálfari hjá Breiðabliki, bæði karla- og kvennaliðunum, heima á Íslandi. Hann segir það ekki erfitt að vera beggja vegna borðsins þegar kemur að því að velja í landsliðið hverju sinni.
„Það svo sem gengur ágætlega. Ég skil bara þarna á milli. Ég fylgist vel með öllum markvörðum á landinu,“ sagði Ólafur á fundi með blaðamönnum í gær.

„Þegar kemur að því að velja liðið þá vel ég bara þá þrjá sem við teljum besta hverju sinni,“ sagði Ólafur og benti á að hann veldi markverðina í samvinnu við hina þjálfarana, þá Frey Alexandersson og Ásmund Guðna Haraldsson.
„Nú erum við með þrjá bestu hér, svo er bara spurningin hvað gerist í framtíðinni.“
Ólafur telur landsliðið ágætlega sett með markverði.
„Við erum með efnilega markverði heima. Berglindi í Stjörnunni og Bryndísi Láru sem bankaði hressilega á dyrnar í sumar,“ sagði Ólafur.
„Eins og þið vitið er ég að þjálfa einn sem er rúmlega fertugur í Breiðabliki og er ennþá í toppstandi.“
Vísaði Ólafur þar til Gunnleifs Gunnleifssonar sem var fastamaður í A-landsliðshópi Íslands allt þar til í fyrra.

Freyr bætti við að það væri mikilvægt að halda áfram að framleiða góða leikmenn í markmannsstöðuna.
„Ég held það sé eins með markverði og aðrar leikstöður. Við þurfum að vera á tánum, passa okkur að búa til framúrskarandi leikmenn. Leggja mikla vinnu á okkur til þess. Við eigum yngri markverði en þá sem Ólafur nefnir sem eru efnilegir. En það er eitt að vera efnilegur sem unglingur og taka svo þetta stóra skref sem við erum að sjá hvert fótboltinn er að þróast.
Umræðuna um markmannsstöðuna má sjá eftir tæpar sjö mínútur í spilaranum hér að neðan.