Viðar Örn Kjartansson og félagar í ísraelska félaginu Maccabi Tel Aviv eru komnir til Íslands og mæta KR í Evrópudeildinni á KR-vellinum í kvöld.
Maccabi liðið er í frábærum málum eftir 3-1 sigur á heimavelli í fyrri leiknum en 2-0 sigur myndi samt skila KR áfram í 3. umferð forkeppninnar.
Viðar Örn Kjartansson skoraði í sigrinum í fyrri leiknum þegar hann kom Maccabi yfir í 2-1.
Viðar Örn getur í kvöld skorað fyrir sitt þriðja félag á KR-vellinum. Hann hefur nefnilega skorað í Vesturbænum fyrir bæði Fylki og Selfoss.
Viðar Örn skoraði síðast á KR-vellinum 16. september 2013 þá sem leikmaður Fylkis. Markið skoraði hann á 25. mínútu og jafnaði þá metin í 1-1. KR skoraði þrjú mörk í seinni hálfleik og vann leikinn 4-1.
Viðar Örn skoraði líka fyrir Selfoss á KR-vellinum rúmu ári áður eða 16. júní 2012. Viðar jafnaði þá líka leikinn í 1-1 en KR skoraði tvö mörk í seinni hálfleik og vann leikinn 3-1.
Viðar Örn náði hinsvegar ekki að skora á KR-vellinum sem leikmaður ÍBV 26. ágúst 2009. KR vann þann leik 3-0.
Leikur KR og Maccabi Tel Aviv hefst klukkan 19.15 og verður fylgst með honum í beinni textalýsingu hér inn á Vísi.
Viðar getur skorað fyrir sitt þriðja félag á KR-vellinum

Tengdar fréttir

Umfjöllun: Maccabi Tel Aviv - KR 3-1 | Viðar skoraði gegn KR-ingum
KR er í erfiðri stöðu eftir 3-1 tap fyrir Maccabi Tel Aviv í fyrri leik liðanna í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í dag. Viðar Örn Kjartansson skoraði eitt marka Maccabi.