Það er nóg af fallegum bikurum í boði í íþróttaheiminum og mesta athygli og virðingu fá þeir sem hefur verið keppt um lengst. Fallegasti bikarinn hjá blaðamönnum Telegraph er Stanley bikarinn en sigurvegarar NHL-deildarinnar í íshokkí fá að lyfta honum.
Stanley-bikarinn er líka alltaf að verða stærri og stærri eftir því sem fleiri vinna hann. Nöfn leikmanna sigurvegaranna eru nefnilega grafin á bikarinn. Með sama áframhaldi verður bikarinn í framtíðinni hreinlega orðinn of stór til að lyfta honum.
Stanley-bikarinn fékk mestu samkeppnina frá kvennabikarnum í Wimbledon-mótinu í tennis (2. sæti) og „Claret Jug“ bikarnum sem sigurvegari opna breska meistaramótsins í golfi (3. Sæti). Í fjórða sætinu er síðan Áskorendabikarinn í rugbý.
Það vekur þó athygli að sjálfur heimsbikarinn í fótboltanum kemst ekki einn á topp tíu í samantekt Telegraph. Efsti fótboltabikarinn Evrópudeildarbikarinn sem er í 5. sæti en Meistaradeildarbikarinn er í 9. sætinu.
Kannski eru þeir ensku svolítið hlutdrægir í sínu vali enda hafa Englendingar ekki unnið heimsbikarinn síðan 1966 og enska liðið Manchester United er handhafi Evrópudeildarbikarins. Hver hefur líka sinn smekk og allir geta seint komið sér saman um hinn fullkomna lista yfir flottustu bikarana í íþróttaheiminum í dag.
Hér fyrir neðan má sjá myndir af fallegustu íþróttabikurunum í dag að mati Telegraph.







