Krefst formennsku hjá zúistum og kvartar undan sýslumanni

Tugmilljónir króna í sóknargjöldum til zúista liggja óútgreiddar hjá Fjársýslu ríkisins vegna ágreinings um yfirráð yfir trúfélaginu. Um þrjú þúsund manns skráðu sig skyndilega sem zúista í kjölfar þess að nýir menn í stjórn félagsins lýstu því yfir að félagsmenn myndu fá greidd út sóknargjöld sem ríkið tekur af skattfé og leggur trúfélögum til.
Saga zúista er rakin í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í febrúar á þessu ári. Þar kemur fram að trúfélagið Zuism var stofnað í apríl 2013 og skrásett í fyrirtækjaskrá. Félagið hafi jafnframt fengið skráningu sem trúfélag hjá innanríkisráðuneytinu sem annaðist slíkar skráningar. Skráning trúfélaga og lífsskoðunarfélaga færðist 1. janúar 2015 til Sýslumannsembættisins á Norðurlandi eystra.
Sá er upphaflega var skráður sem formaður Zuism hætti fljótlega afskiptum af félaginu og var tilkynnt um nýjan formann, Einar Ágústsson, til fyrirtækjaskrár á Þorláksmessu 2013. Átti Einar að veita félaginu forstöðu þar til Ágúst Arnar, bróðir hans, hefði aldur til að gegna embættinu.
Þar sem sýslumaður fékk hins vegar ekki árlega skýrslu frá zúistum auglýsti embættið á árinu 2015 í Lögbirtingablaðinu eftir forstöðumanni eða stjórnarmönnum fyrir trúfélagið. Þá gaf Ísak Andri Ólafsson sig fram og var hann skráður forstöðumaður félagsins 1. júní 2015. Sú skráning var síðar felld úr gildi með úrskurði innanríkisráðuneytisins. Ísak Andri og meðstjórnendur hans voru með stjórnartaumana í félaginu þegar auglýst var það fyrirheit að greiða félagsmönnum út sóknargjöldin frá ríkinu.
Upphaflegu stofnendur félagsins höfðuðu í nafni þess mál á hendur ríkinu og kröfðust þess að fá sóknargjöldin greidd. Byrjaði krafan í 5,3 milljónum króna en endaði í 32 milljónum. Ríkið var sýknað.
„Eftir að skráning Ísaks Andra var felld úr gildi með úrskurði innanríkisráðuneytisins er nú enginn skráður forstöðumaður í félaginu, en sýslumaður hefur til meðferðar kröfu stefnanda um skráningu Ágústs Arnars Ágústssonar og hvort stefnandi uppfylli skilyrði þess að vera skráð trúfélag,“ sagði héraðsdómur. Dóminum var ekki áfrýjað.
Samkvæmt Sýslumannsembættinu á Norðurlandi eystra er reiknað með að afstaða þess til kröfu Ágústs liggi fyrir á næstunni. Einar Ágústsson, sem var forstöðumaður trúfélagsins um skeið, segir að ekki hafi verið fjallað um málið á réttum nótum.
„Þú ert reyndar fyrsti blaðamaðurinn til að hafa samband við stjórn félagsins og það er svo sem ágætis byrjun hjá þér en varðandi hvar þetta stendur er best að ræða við lögmann félagsins,“ segir Einar sem kveður málið enn á viðkvæmu stigi. Ekki fengust þó svör frá lögmanninum.
Fjársýsla ríkisins stöðvaði greiðslur sóknargjalda til zúista í febrúar í fyrra þar sem ekki þótti liggja fyrir hver væri rétthafi í félaginu. Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar eru samtals 2.845 manns skráðir undir Zuism miðað við 3.087 árið 2016. Það þýðir að í hverjum mánuði bætast tæplega 2,6 milljónir króna við sóknargjöld zúista sem bíða þess að verða greidd út ef og þegar félagsmenn greiða úr innri málum sínum. Ekki fengust upplýsingar frá Fjársýslu hver heildarfjárhæðin er nú orðin en gera má ráð fyrir að hún nálgist 50 milljónir króna.
Tengdar fréttir

Dularfullt trúfélag á Íslandi ætlar að endurgreiða meðlimum sínum sóknargjaldið
Trúfélagið Zuism hefur verið endurvakið hér á landi og er ætlunin að greiða sóknargjöld félagsmanna aftur í vasa þeirra.

Stofnendur zúista gera tilkall til sóknargjalda
Núverandi stjórn hefur heitið að endurgreiða sóknargjöld sem nema um 35 milljónum. Stofnendur hafa höfðað mál á hendur Ríkissjóði.

Kickstarter-bræður fá ekki sóknargjöld zúista í bili
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá máli stofnenda og skráðra forsvarsmanna trúfélags zúista á Íslandi á hendur ríkissjóði en málið var höfðað vegna 33 milljóna króna sóknargjalda sem ekki hafa verið greidd út til félagsins.

Zúistar orðnir fleiri en múslimar á Íslandi
Zúistar eru nú orðnir eitt af stærstu trúfélögum landsins og hefur þeim fjölgað um ríflega þúsund á tveimur vikum. Yfirlýst markmið zúista er að koma sóknargjaldakerfinu af og leggja félagið síðan niður

Zúistar orðnir álíka margir og ásatrúarmenn
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá eru meðlimir Trúfélags zúista orðnir fleiri en þrjú þúsund. Þeim fjölgaði í gær þrátt fyrir fréttaflutning RÚV um að meintir fjárglæframenn hafi komið að rekstrarfélagi zúista.