Skoðun

Upp úr hjólförunum

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Á sama tíma og það er mikilvægt að finna færar leiðir til bregðast við þeim vanda sem sauðfjárbændur eiga nú í þarf að horfa til framtíðar. Talsverð umræða hefur verið um nýja búvörusamninginn og þó að ekki sé hægt að leita skýringa á núverandi ástandi í þeim tiltekna samningi, er nauðsynlegt að við endurskoðun hans sé litið til stöðunnar.

Í öllum rekstri á Íslandi sem byggir á útflutningi er gert ráð fyrir sveiflum á mörkuðum og gengi. Slíkt á einfaldlega ekki að koma á óvart. Það sætir því nokkurri furðu að í sauðfjárhluta búvörusamningsins sé gert ráð fyrir umtalsverðum útflutningi á kjöti en hins vegar eru þar engin úrræði til að mæta slíkum sveiflum. Úr þessu þarf að bæta við endurskoðun búvörusamninga svo eitt dæmi sé tekið.

Hvað bráðavanda greinarinnar varðar mun að sjálfsögðu ekki standa á stjórnvöldum að bregðast við innan þess ramma sem samningar og fjárheimildir leyfa. Slíkar lausnir þurfa þó að vera hugsaðar til langs tíma og þær mega ekki vera í þversögn við aðra samninga milli bænda og ríkis. Mistök eru til að læra af þeim og það má draga mikinn lærdóm af þeirri stöðu sem nú er enn og aftur komin upp hjá einni mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.

Það er verðug áskorun allra sem að þessum málum koma að forðast að festast í gömlum hjólförum sem ekki færa málin áfram og allra síst í átt að nýjum lausnum. Hugmyndasmiðir núverandi kerfis þyrftu að nýta sér uppbyggilega gagnrýni í stað þess að falla í hefðbundnar gryfjur á borð við þá sem formaður Framsóknarflokksins fellur í þegar hann dylgjar um að Viðreisn sé í hagsmunagæslu fyrir fjármagnsöfl og heildsala af því að flokkurinn boðar breytingar í þessum mikilvægu málum.

Sameiginlegt verkefni fram undan er að tryggja hagsmuni bænda og neytenda til lengi tíma. Er ekki vænlegast að nota kraftana óskerta í það?

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.


Tengdar fréttir

Viðreisn á villigötum

Ráðherrar Viðreisnar keppast við að koma með hverja rangfærsluna á fætur annarri þessa dagana.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×