Hugbúnaðarfyrirtækið Mozilla sem stendur að baki Firefox-vefvafranum stefnir á samstarf við fyrirtæki og hagsmunahópa um hvernig hægt sé að ráða bót á dreifingu gervifrétta á netinu.
Katharina Borchert, yfirmaður nýsköpunar hjá Mozilla, segir að barátta gegn gervifréttum sé náttúrulegt viðfangsefni fyrir fyrirtækið þar sem að villandi upplýsingar af þessu tagi gangi þvert á yfirlýst markmið þess um að netið sé alþjóðlegur upplýsingagrunnur fyrir almenning.
„Ef okkur tekst ekki að draga úr þeirri andlegu byrði á fólk að þurfa að hafa stanslausar áhyggjur af því hvort að upplýsingar séu trúverðugar þá dregur það úr gildi opins internets fyrir alla sem taka þátt og veldur mörgum vandamálum í framtíðinni,“ segir Borchert við Business Insider.
Rannsakaði útbreiðslu og áhrif gervifrétta í kringum kosningar
Verkefni Mozilla nefnist Upplýsingatraustsfrumkvæði Mozilla (e. Mozilla Information Trust Inititative). Í tengslum við það ætlar fyrirtækið að birta skýrslu um áhrif gervifrétta á netverja.
Mozilla rannsakaði fréttalestur notenda sem samþykktu að taka þátt á tímabili fyrir og eftir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í fyrra. Skýrslan mun sýna hversu útbreiddar gervifréttir voru og hvaða áhrif þær höfðu á hegðun fólks.
Biður fyrirtækið önnur fyrirtæki um að fara yfir sín gögn til að hægt sé að auka skilning á gervifréttum enn frekar. Tilgangurinn er að netfyrirtæki geti komið sér saman um hvernig þau rannsaka gervifréttir og útbreiðslu þeirra.
