Hann tjáði sig ekki mikið um atburði liðins sólarhrings en Björt framtíð sleit ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn á tólfta tímanum í gær.
Ástæðan var trúnaðarbrestur forsætisráðherra og Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra, en Sigríður sagði Bjarna frá því í lok júlí að faðir hans, Benedikt Sveinsson, hefði skrifað undir umsögn á umsókn Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmds kynferðisbrotamanns, þegar hann sótti um uppreist æru í fyrra.
„Ég ætla að tjá mig síðar í dag en í millitíðinni þarf ég að nota tímann til að vinna úr þessari óvæntu stöðu og næst er að hitta hérna þingflokkinn,“ sagði Bjarni.
Aðspurður hvort að hann ætlaði að ganga á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta í dag, sagði Bjarni:
„Við munum tala um það í dag þegar við eigum fund hér.“
Hann vildi ekki svara því hvort að það væri fyrsti kostur hans að mynda nýja ríkisstjórn.
„Þetta er einmitt atriði sem ég vil tala um við ykkur í dag en það er margt sem mig langar til að tala um. Þessi tíðindi vikunnar og sú staða sem síðan myndast í kjölfarið, þetta er ég tilbúinn til að ræða við ykkur í dag.“