Skoðun

Ályktanir um Evrópumál

Jón Sigurðsson skrifar
Fyrir nokkru birtist grein eftir mig um stöðu Evrópumála (Fréttabl. 27. sept.). Nú hefur Þröstur Ólafsson hagfræðingur andmælt ályktunum mínum (Fréttabl. 10. okt.). Reyndar held ég að við Þröstur séum sammála um margt í þessum efnum, en ég dreg aðrar ályktanir en hann um sumt, og að einhverju leyti hef ég gefið honum tilefni til andmæla.

Ég álykta að miklar tafir verði á hugsanlegri aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu (ESB), og að fyrri umsókn sé í raun úr sögunni. Ég álykta að ESB hafi að mörgu öðru að huga en nýjum aðildarumsóknum og hafi ýtt þeim til hliðar. Og ég held því fram að flestir áhugamenn hérlendis um ESB-aðild vilji bíða og sjá hvað verður um Brexit áður en lengra verður haldið.

En auðvitað er hér aðeins um ályktanir að ræða. Ef til vill álykta ég of sterkt og geri of mikið úr vandamálum og andstreymi. En slík álitamál þarf að ræða af raunsæi.

Um margt erum við Þröstur á einu máli. Báðir gerum við okkur grein fyrir veikleikum og viðkvæmni íslensku krónunnar og fyrir áhrifum hennar á þá almennu kjaraskerðingu sem varð við gengisfall og hrun lánakerfisins þegar fjármálakerfið kolféll. Báðir teljum við aðild að ESB áhugaverðan kost. Og báðum er ljóst að um valkosti er að ræða en ekki nauðung. Þresti mislíkar að ég geri nokkuð úr þjóðrækni, fullveldi þjóðríkja og forræði þeirra í málum ESB. En ESB er samband fullvalda þjóðríkja, og ég nefni nokkur atriði því til staðfestu í þessari grein minni. Reyndar má fullyrða að ESB sé virkasta vörn evrópskra þjóðríkja í veröld ofurstórvelda, alþjóðaþróunar og samþættingar. Í grein minni nefni ég beinlínis svonefndan „lýðræðishalla“ þessu til áréttingar.

Áður hefur verið bent á að þjóðernishyggja er af mörgu tagi, og til er frjálshuga hófsöm þjóðernishyggja (stundum kölluð „þjóðhyggja“ til aðgreiningar). Í regluverki ESB er að finna mjög víðtækar aðgerðir til varnar þjóðtungum, þjóðmenningu og fjölbreytni samfélaga. Þjóðrækni, þjóðhyggja og aðild að ESB eru alls ekki andstæður.

Í grein minni nefni ég málflutning stjórnvalda í Póllandi og Ungverjalandi. Svo getur farið að áróðurstækni verði áfram beitt í þessum löndum til að auka þar andúð og sundrungarvilja. Og ESB stendur líka frammi fyrir miklum vanda í Skotlandi og Katalóníu, – einmitt vegna þess að það er samband fullvalda þjóðríkja. Því verður ESB að koma fram fyrir þeirra hönd andspænis skoskum og katalónskum almenningi. Slíkt getur litið illa út í íslenskum augum.

Þröstur virðist óánægður með að ég tel „gild rök með og móti aðild“ Íslendinga að ESB.

En þetta tel ég kjarna málsins: Ekki er unnt með ábyrgu móti að taka endanlega afstöðu til aðildar Íslendinga að ESB fyrr en frumvarp að aðildarsamningi liggur fyrir. Í þessu eru fjölmörg hagsmuna- og réttindamál sem leysa þarf úr fyrst, og í því sambandi minnti ég á merka ályktun flokksþings Framsóknarmanna 2009 sem enn er í fullu gildi.

Höfundur er fv. skólastjóri.


Tengdar fréttir

Að segja rangt frá

Mig rak í rogastans þegar ég las grein í Fréttablaðinu 27. september sl. eftir Jón Sigurðsson, fv. formann Framsóknarflokksins. Það voru ekki skoðanir hans sem vöktu hjá mér athygli, enda skoðanir yfirleitt ekki mjög áhugaverðar, heldur meðferð Jóns á staðreyndum.

Aðildarumsókn í læstri skúffu

Fyrir nokkrum árum var talsverður áhugi meðal Íslendinga á aðild að Evrópusambandinu (ESB), og sumir héldu að ESB væri einhvers konar björgunarsveit. Þá var aðildarumsókn til umfjöllunar. Nú virðist aðeins tæpur þriðjungur landsmanna tilbúinn til að styðja aðildarumsókn.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×