Baldur Þórhallsson stjórnmálafræðingur bendir á þetta og segir að ef Vinstri græn ætla að mynda ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokkurinn þá þyrfti það að vera fimm flokka stjórn.Vinstri græn þyrftu þar með að leita til Samfylkingar, Viðreisnar, og Pírata og taka annað hvort Framsóknarflokkinn eða Miðflokkinn með í stjórn sem yrði afar ólíklegt segir Baldur.

Hann segir Vinstri græna einnig geta myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og þá væri hægt að taka hvaða flokk sem er með í þá stjórn til að ná meirihluta í þriggja flokka stjórn. Flokkur fólksins er með þrjá þingmenn þegar fyrstu tölur hafa verið lesnar. Hann var ekki inni á þingi á könnunum vikuna fyrir kosningar.
Inga Sæland, formaður flokksins, fór mikinn í leiðtogaumræðum á RÚV í gær þar sem hún beygði meðal annars af þegar hún talaði um hluta þeirra sem minna mega sín í samfélaginu.Baldur segir þá frammistöðu Ingu mögulega hafa skilað einhverju en telur líklegra að flokkurinn hafi verið vanmetinn í könnunum, líkt og jafnan er með minni flokka.
Hann segir Sjálfstæðisflokkinn dala eilítið og Framsókn vinna varnarsigur. Vinstri græn bæta litlu við sig sem hann segir að hljóti að vera vonbrigði fyrir flokkinn miðað við stöðuna sem var uppi fyrir kosningar.
