Alfreð Finnbogason fékk ekkert að spila fyrir Augsburg þegar liðið tók á móti Bayer Leverkusen í þýsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum um miðja deild, og breyttist sú staða ekkert þar sem leiknum lauk með 1-1 jafntefli.
Það var hart barist í leiknum og lyfti Christian Dingert, dómari leiksins, gula spjaldinu fimm sinnum í fyrri hálfleik. Engin mörk voru þó skoruð og því var markalaust í hálfleik.
Liðin voru hins vegar ekki lengi að keyra seinni hálfleikinn í gang. Kevin Volland kom Bayer yfir á 47. mínútu, en nafni hans Kevin Danso jafnaði fyrir Augsburg aðeins tveimur mínútum seinna.
Þar við sat og eru liðin eins og áður segir um miðja deild eftir 11 leiki.
Enginn Alfreð í jafntefli hjá Augsburg
