Meirihluti þingflokks Vinstri grænna styður að fara í formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Tveir þingmenn flokksins lögðust gegn þessu, þau Rósa Björk Brynjólfsdóttir og Andrés Ingi Jónsson.
„Það var niðurstaða fundarins að meirihluti þingflokks VG styður formlegar viðræður við þessa tvo flokka,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, við fjölmiðlamenn í þinghúsinu eftir fundinn.
Ljóst var fyrir fundinn að skiptar skoðanir voru um það innan þingflokks Vinstri grænna að fara í formlegar viðræður en á þingflokksfundi í morgun samþykktu Sjálfstæðismenn að fara í formlegar viðræður við Framsókn og VG. Saman eru þessir flokkar með góðan meirihluta á Alþingi eða alls 35 þingmenn.
Fréttin hefur verið uppfærð.
