Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, nánast staðfestir að spilað verður í Split en engin umræða hefur verið um annað nema í fréttamiðlum í Serbíu og í Ungverjalandi. Hann ræddi málið í Akraborginni á X977 í dag.
„Samkvæmt EHF er þetta mál stormur í vatnsglasi, enn sem komið er. Samkvæmt þeim upplýsingum frá þeim sem ég fékk í morgun stendur ekkert annað til en að leikirnir fari fram í Split og engin umræða um neitt annað hefur átt sér stað,“ segir Róbert Geir.
„Það er ekkert sem bendir til annars en að spilað verður í Split. Engar fréttir eða tilkynningar frá mótshöldurum hafa borist okkur né EHF.“
Undirbúningur strákanna okkar er klár en þeir koma saman 28. desember og æfa í Reykjavík. Eins og Dagur Sigurðsson greindi frá í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport HD mætir Japan í heimsókn í janúar og spilar vináttuleik við Ísland 3. janúar.
Það verður kveðjuleikur strákanna því daginn eftir fljúga þeir til Þýskalands og mæta Evrópumeisturum Þjóðverja í tveimur vináttuleikjum fimmta og sjöunda janúar. Íslenska liðið æfir í Þýskalandi til tíunda janúar og ferðast þá til Split.
Fyrsti leikur strákanna okkar á EM verður svo á móti Kristjáni Andréssyni og sænska landsliðinu tólfta janúar í Split en einnig eru í riðlinum Serbar og gestgjafar Króata.
Viðtalið við Róbert Geir Gíslason úr Akraborginni má heyra hér að neðan.