Serían hafði vinnuheitið Sylgja en breyttist fljótt í Ástríði sem vann hug og hjörtu sjónvarpsáhorfenda en seríurnar tvær sem voru gerðar voru tilnefndar til níu Edduverðlauna. Seinni serían vann Edduna sem besta leikna sjónvarpsefnið.
„Við breyttum nafninu snemma í ferlinu. Okkur langaði að hafa tvíræða merkingu í nafninu. Ástríður væri þannig líka ástríður.“

„Rétt áður en við frumsýndum kom hrunið. Við vorum svolítið að fjalla um fjármálageirann og þessa stelpu sem hafði klárað einhvers konar jarð- eða eðlisfræði en verið plötuð inn í fjármálageirann eins og var svolítið gert.
Þetta var byggt á vinkonu minni sem er einmitt jarðeðlisfræðingur en allt í einu var hún kominn í áhættustýringu í Kaupþingi – sem var ekki alveg það sem maður bjóst við.
Það var pælingin. Að hún yrði eins og fiskur á þurru landi.“
Hún segir að í eftirávinnslunni hafi verið bætt við dagsetningum sem áttu að sýna fólkinu heima í stofu að þættirnir væru að gerast fyrir hrun.
„Það átti að frumsýna um haustið 2008 en framleiðendum fannst eins og þættirnir ættu ekki alveg við. Þeir voru hræddir við að þetta væri alveg úr takti við nútímann þannig að það var bætt við dagsetningum þannig áhorfendur vissu að þættirnir gerðust fyrir hrun.“
Ástríður sneri aftur á Stöð 2 haustið 2013 og voru valdir besta leikna sjónvarpsefnið á Edduhátíðinni.
Aðstandendur þáttanna tóku við verðlaununum og sló Ilmur á létta strengi í fjallkonubúningi eins og sést í meðfylgjandi myndskeiði.
Vinkona Ástríðar sagði henni að best væri að koma fram við "hommavini" sína eins og vinkonur og Ástríður tekur hana á orðinu. Útkoman er vægast sagt vandræðaleg.