Argentínumaðurinn Santiago Ponzinibbio er ekkert sérstaklega vinsæll hér á landi eftir að hann tróð puttunum sínum á kaf í augu Gunnars Nelson í Glasgow síðasta sumar. Hann er ekki hættur að beita þeirri taktík.
Ponzinibbio hafði betur gegn Mike Perry í rosalegum bardaga í Kanada um síðustu helgi. Þá fékk Perry að kenna á puttunum hans Ponzinibbio eins og Gunnar. Bandaríkjamaðurinn slapp þó betur.
„Hann potaði í augað á mér og það sér á mér út af því,“ sagði Perry en hann kvartaði yfir potinu í búrinu en dómarinn gerði ekkert.
Perry gat haldið áfram eftir potið sem Argentínumaðurinn ætlar að komast upp með enn eina ferðina. Sjá má mynd af augnpotinu hér.
