Það voru starfsmenn Fusion GPS sem bjuggu til umdeilda skýrslu um tengsl Trump í Rússlandi.
Sjá einnig: Frásagnir af gylltum sturtum og kúgunum Rússa „nornaveiðar“
Æðsti þingmaður Demókrataflokksins í dómsmálanefnd öldungadeildarinnar tók þá ákvörðun að birta afrit af samtali þingmanna við Simpson eftir að hann hafði sjálfur kallað eftir því. Simpson ræddi við þingmennina í tíu klukkustundir í ágúst og síðan þá hefur hann sagt að Repúblikanar hafi lekið misvísandi hlutum af samtalinu í pólitískum tilgangi.
Birti afritið til að svara dylgjum og rangfærslum
Dianna Feinstein, sem birti afritið, segir að dylgjurnar og rangfærslur sem hafi verið á kreiki varðandi svör Simpson séu liður í áætlun Repúblikana að grafa undan rannsókn Robert Mueller, sérstaks saksóknara, á mögulegu samstarfi framboðs Trump með Rússum og hvort Trump hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar.
„Eina leiðin til að gera allt ljóst er að opinbera afritið,“ sagði Feinstein. Sjá má afritið, sem birt var í kvöld, í heild sinni hér.
Christopher Steele, starfsmaður Fusion GPS og fyrrverandi njósnari í Bretlandi, safnaði gögnunum sem mynduðu skýrsluna umdeildu. Áðurnefnd þingnefnd hefur stefnt Steele og boðað hann á fund.
Upplýsingum bar saman
Í byrjun ársins 2016 var Fusion GPS ráðið af andstæðingum Trump til þess að safna upplýsingum um hann. Eftir að í ljós kom að hann myndi hljóta tilnefningu Repúblikanaflokksins réð lögmaður Hillary Clinton fyrirtækið til að halda upplýsingasöfnuninni áfram. Steele, sem starfaði sem njósnari í Rússlandi, var ráðinn af fyrirtækinu til að kanna tengsl og umsvif Trump þar í landi.
Steele leitaði til FBI í júlí sama ár og sagðist hafa áhyggjur af sambandi Trump og yfirvalda Rússlands.
Simpson sagði þingmönnum að starfsmenn FBI hefðu gert Steele ljóst að þeir trúðu hluta þess sem fram kom í skýrslunni.
„Ég skildi það sem svo að þeir Trúðu Chris á þeim tímapunkti,“ sagði Simpson. „Þeir töldu Chris trúverðugan þar sem þeir hefðu þegar fundið upplýsingar um sömu hluti og hluti þeirra upplýsinga komu frá uppljóstrara innan framboðs Trump.“