Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að Magnús Pálmi Örnólfsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin viðskipta og gjaldeyrisstýringar Glitnis, hafi ekki fengið niðurfellingu sakarefnis í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis. Grímur fór með rannsókn málsins hjá embætti sérstaks saksóknara.
Athygli vakti þegar ákæran var gefin út að Magnús Pálmi var ekki ákærður en Jóhannes Baldursson, einn ákærðu, var næsti yfirmaður hans. Í sambærilegum málum hafa fyrrverandi forstöðumenn eigin viðskipta verið ákærðir og sakfelldir í málinu.
Magnús Pálmi samdi sig frá ákæru í Stím-málinu svokallaða þar sem bæði Lárus Welding og Jóhannes Baldursson voru dæmdir til fangelsisvistar. Var hann lykilvitni í málinu en hann breytti framburði sínum í yfirheyrslum hjá sérstökum saksóknara og veitti embættinu upplýsingar gegn því að hann nyti friðhelgi frá saksókn í málinu. Var á það fallist af hálfu ríkissaksóknara og naut Magnús því réttarverndar í málinu en hann hafði upphaflega stöðu sakbornings. Var það gert á grundvelli 5. greinar laga um embætti sérstaks saksóknara.
Við aðalmeðferðina í dag sagðist Grímur kannast við að hafa átt fundi með Magnúsi Pálma um að hann fengi niðurfelld sakarefni í málum hjá embætti sérstaks saksóknara, en að það hafi fyrst og fremst átt við um Stím-málið. Eftir þann fund hafi Magnús Pálmi gefið skýrslu á nýjan leik og breytt framburði sínum.
Ekki hlustað á símtöl verjenda og sakborninga
Magnús Pálmi gaf einnig skýrslu við rannsókn markaðsmisnotkunarmálsins og spurði Björn Þorvaldsson saksóknari hvort að framburður Magnúsar Pálma gæti hafa verið litaður af möguleikanum um niðurfellingu sakarefna en dómari leit svo á að Magnús Pálmi þyrfti að svara fyrir það sjálfur.
Hann sagðist hyggja að ákvörðun sé tekin við lok rannsóknar um hverjir séu ákærðir í málinu og að í markaðsmisnotkunarmálinu hafi einfaldlega verið tekin ákvörðun um að Magnús Pálmi yrði ekki ákærður.
Reimar Pétursson, verjandi Jóhannesar, spurði Grím einnig út í símhleranir sem notaðast var við við rannsókn málsins, þá sérstaklega símtöl milli hans og Jóhannesar. Sagðist grímur ekki vita til þess að hlustað hafi verið á símtöl milli verjenda og sakborninga í neinum málum hjá sérstökum saksóknara og hafði þeim iðulega verið eytt strax. Nokkur símtöl fundust sem hafi ekki verið eytt á réttum tíma en að þá hafi verið tekin ákvörðun um að upplýsa hvaða símtöl ætti að nota og að öðrum yrði eytt.
Grímur Grímsson svaraði fyrir hleranir í Glitnismáli

Tengdar fréttir

Markaðsmisnotkun í Glitni: Áttar sig ekki á umræðu um að Glitnir hafi ekki verið með formlega viðskiptavakt
Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri Glitnis og forveri Lárusar Welding í því starfi, segist hafa litið svo á að bankinn hafi verið með formlega viðskiptavakt á eigin hlutum.

Markaðsmisnotkun í Glitni: „Ég er alveg sammála því að þetta sé óheppilegt“
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis og einn ákærðu í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis, sagði fyrir dómi í morgun að hann hafi reynt eftir bestu getu að bregðast við breyttum aðstæðum á markaði í tíð sinni sem forstjóri bankans.

Markaðsmisnotkun í Glitni: Segir stjórn bankans hafa samþykkt lánveitingarnar
Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis og einn ákærðu í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis, sagði fyrir dómi í morgun að frágangur lánveitinga til fjórtán einkahlutafélaga í eigu jafnmargra starfsmanna glitnis hafi ekki verið til fyrirmyndar.